Enn ófremdarástand hjá gangandi og hjólandi vegfarendum við Hringbraut

Gangandi og hjólandi vegfarendur við hina nýju Hringbraut eru ekki hressir með framgang verkefnisins, þar sem enn hefur ekki verið lokið við frágang stíga eða uppsetningu lýsingar við göngu- og hjólreiðaleiðir og lenda vegfarendur enn í ýmsum erfiðleikum.

Bæði er frágangi ábótavant nálægt gatnamótum Hringbrautar, Miklubrautar, Bústaðavegar og Snorrabrautar, þar sem gönguleiðir eru margar enn ófrágengnar og illfærar og einnig við gatnamót Hringbrautar og Njarðargötu, en göngubrýrnar þar hafa sætt gagnrýni vegfarenda sem segja þær í senn óaðlaðandi og allt of langar.

Við Rauðarárstíg er vegfarendum gert mjög erfitt fyrir að komast leiðar sinnar inn eftir Miklatúni og inn í Hlíðahverfið, auk þess sem víða liggja aðföng verktaka yfir gangstéttum. Víða er í stað gangstétta óslétt og gróf möl og grús þakin ýmiss konar drasli. Samfara skorti á lýsingu getur þetta ástand valdið aukinni slysahættu á þessum svæðum.

Seinagangur við stígagerð

Kvartað var yfir seinagangi við stígagerð og frágangi ljósa í september sl., en þá lofuðu borgaryfirvöld að frágangi yrði lokið í október. Að sögn Höskuldar Tryggvasonar hjá framkvæmdasviði Reykjavíkurborgar er verið að breyta gatnamótum við Rauðarárstíg og segir hann þær framkvæmdir ekki tengjast færslu Hringbrautar. Ákveðið hafi verið að ráðast í þær seint í haust og þá áætlað að þeim lyki fyrir áramót. Útlit sé fyrir að þetta standist.

Opnuð með formlegum hætti á föstudag

Þá segir Höskuldur að vinna við mannvirkin sem gerð voru vegna færslu Hringbrautar sé á lokastigi en til standi að opna þau með formlegum hætti á föstudag. Tafir hafi orðið á verktímanum og skýrist þær af meðal annars af atriðum sem snúa að lögnum á svæðinu í kring og öðrum sem tengjast lokun Snorrabrautar. "Ekki var hægt að hefja vinnu við brú yfir Njarðargötu fyrr en búið var að opna Snorrabrautina en þar fór fram undirgangagerð. Nokkrar tafir urðu þar líka," segir hann. Þá hafi verið ákveðið í haust að byggja upp í kringum Valssvæðið. Vegna ræsagerðar þar hafi ekki verið hægt að ganga frá göngustíg á þeim slóðum. Vinna vegna ræsisins hefjist á næstu dögum og í framhaldinu verði hægt að ganga frá stígnum þar.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert