Íslendingar kynna sér reglur um olíuleit og olíuvinnslu í Færeyjum

Olíuborpallur Statoil á Heiðrúnarsvæðinu í Norðursjó.
Olíuborpallur Statoil á Heiðrúnarsvæðinu í Norðursjó. mbl.is/statoil

Sendinefnd frá Íslandi fór til Færeyja í vikunni til að sitja árlega olíuráðstefnu Færeyinga, en í dag og á morgun munu færeyskir sérfræðingar fara ítarlega yfir það með íslensku sendinefndinni hvernig Færeyingar hafa staðið að setningu reglna varðandi olíuleit og olíuvinnslu og útgáfa leyfa í því sambandi. Í íslenska hópnum eru fulltrúar iðnaðar- og umhverfisráðuneyta og stofnunum þeirra í orku- og umhverfismálum.

Þorkell Helgason, orkumálastjóri, sem sat ráðstefnuna, sagði að það sé nauðsynleg forsenda þess, að fyrirtæki sýni leit og rannsóknum á olíu á íslensku hafsvæði áhuga, að lög og reglur um réttindi og skyldur þeirra sem fá kynnu leyfi í þessu skyni séu fyrir hendi. Þegar hafi verið sett almenn lög um þetta efni, en unnið sé að útfærslu þeirra. Í þeim efnum öllum hafi Íslendingar margt til Færeyinga að leita sem hafa þegar farið í gegnum slíkt ferli. Þorkell sagði þó að setning regluverks um olíuleit þýddi ekki endilega að slík leit hæfist síðan í kjölfarið og vildi ekkert segja um það hvort mjór væri mikils vísir í þessum efnum.

Þorkell sagði í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins að Færeyingar væru mun lengra komnir en Íslendingar hvað varðar stefnumótun um olíuleit og olíuvinnslu. Þar séu reglugerðir fullmótaðar, m.a. um umhverfismál, og jafnframt hafi Færeyingar þegar haft reynslu af veitingu leyfa til rannsókna og vinnslu á olíu og gasi. Á fyrrgreindri olíuráðstefnu hafi raunar komið fram að mikið verður umleikis á þessu og næsta ári í olíuleit og -rannsóknum á færeysku hafsvæði.

Tvö fyrirtæki hafa gert frumathuganir, svokallaðar skjálftamælingar, í íslenskri lögsögu á svæðinu suður af Jan Mayen. Þorkell segir að fyrirtækin komist ekki mikið lengra nema ljóst liggi fyrir hvaða réttindi og skyldur þeir hafa, sem vilja fá leyfi til olíurannsókna og í kjölfarið hugsanlegrar vinnslu á olíu eða gasi við Ísland. Ríkisstjórn Íslands hafi því tekið þá ákvörðun s.l. vor að ljúka reglusmíð um málið svo hægt verði að taka næstu skref um undirbúning að olíuleit við Ísland.

Eitt fyrirtækjanna sem sýnt hafa áhuga á olíuleit innan íslensku lögsögunnar er Geysir Petroleum, sem er að stærstum hluta í eigu norska ráðgjafarfyrirtækisins Sagex Petroleum AS, sem sérhæfir sig í orkuiðnaði. Fyrirtækið keypti upplýsingar frá Inseis Terra árið 2001, sem gert hafði mælingar í íslensku lögsögunni á suðurhluta Jan Mayen-hryggsins. Gáfu þær mælingar vísbendingar um að olíu eða annað jarðefnaeldsneyti gæti verið að finna í nægu magni til að hefja boranir og vinnslu. Í færeyska vefritinu Olivant í dag kemur fram að Terji Hagevang, forstjóri Geysis, hafi verið viðstaddur olíuráðstefnuna í Færeyjum. Var haft eftir honum að hann útiloki ekki möguleika á því að kolvetni finnist í jarðlögunum í lögsögu Íslands við Jan Mayen-hrygginn.

Þorkell Helgason ítrekaði að Íslendingar þyrftu að ljúka heimavinnunni. „Hvort þess er síðan langt að bíða að raunveruleg olíuleit hefst við Ísland verður framtíðin að leiða í ljós,“ sagði hann. „Þær upplýsingar sem fyrirtækin fá úr frumleit sinni á landgrunninum selja þau áfram til olíufyrirtækja. Upplýsingarnar eru hins vegar takmörkuð söluvara fyrr en leikreglurnar á Íslandi eru ljósar,“ sagði hann. Samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að reglusmíðinni ljúki vorið 2007.

Þorkell Helgason, orkumálastjóri.
Þorkell Helgason, orkumálastjóri.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert