Konur styðja frekar Samfylkinguna og VG

Hlutfallslega mun fleiri konur en karlmenn styðja Samfylkinguna og Vinstri græna og mun fleiri karlmenn en konur styðja Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn. Þá styðja hlutfallslega fleiri yngri kjósendur Sjálfstæðisflokkinn og Vinstri græna en fólk á öðru aldursbili og hlutfallslega fleiri eldri kjósendur styðja Samfylkinguna og Framsóknarflokkinn.

Þetta er meðal þess sem kemur fram þegar niðurstöður þjóðmálakönnunar Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands fyrir Morgunblaðið eru skoðaðar. Könnunin náði til 1.200 manna slembiúrtaks fólks á aldrinum 18-75 ára úr þjóðskrá. Um er að ræða símakönnun og svöruðu 829 og var nettórsvarhlutfall um 70%. Rúm 12% aðspurðra neituðu að svara, en könnuninn fór fram 18.-25. janúar.

Í könnuninni kemur einnig fram að hlutfall stuðningsmanna Vinstri grænna er nokkuð jafnt yfir landið. Fæstir stuðningsmanna þeirra eru í suðvesturkjördæmi, 16,1%, en fylgið er mest á landsbyggðinni, 19,4%. Fylgi Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks er hins vegar mest á suðvesturhorninu. Fylgi Sjálfstæðisflokksins er mest í suðvesturkjördæmi, nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur, eða tæp 52% samkvæmt niðurstöðu könnunarinnar, rúm 44% í Reykjavík og minnst út á landi eða 41%. Fylgi Samfylkingarinnar er hins vegar mest í Reykjavík, rúm 30%, en minnst úti á landi, tæp 17%.

Tæp 4% í Reykjavík

Fylgi Framsóknarflokksins er langmest úti á landsbyggðinni þar sem það er 16,2%, en minnst í Reykjavík þar sem það mælist tæp 4%. Frjálslyndi flokkurinn er einnig með mest fylgið á landsbyggðinni, 5,4%, en minnst í suðvesturkjördæmi, tæpt eitt prósent.

Þá kemur fram að Framsóknarflokkurinn sækir hlutfallslega mest fylgi til þeirra sem eiga grunnskólanám að baki. Hlutfallega mest fylgi Samfylkingarinnar og Vinstri grænna kemur úr röðum háskólamanna og þeir sem eiga verklegt framhaldsnám að baki styðja hlutfallslega flestir Sjálfstæðisflokkinn.

Bent er á það í könnuninni að færri svör eru á bak við hverja ofangreinda bakgrunnsbreytu og skekkjumörkin stækka. Því beri að túlka niðurstöðurnar með varúð, einkum hvað varðar skiptingu úrtaksins eftir aldri í stuðningsmenn einstakra flokka.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert