Rætt um að ókeypis smokkar liggi frammi á heilsugæslustöðvum og í skólum

Af hálfu heilbrigðisyfirvalda hefur verið til umræðu í tengslum við baráttu gegn HIV-smiti og útbreiðslu kynsjúkdóma hvort bæta megi aðgengi að smokkum annars vegar og sprautum og nálum hins vegar. Meðal þeirra hugmynda sem hreyft hefur verið er að ókeypis smokkar liggi frammi á heilsugæslustöðvum, í skólum og unglingamóttökum en ungt fólk á aldrinum 15–24 ára er í mestri hættu að fá klamýdíu. Einnig hefur verið rætt að HIV-smitað fólk fái aðgang að ókeypis smokkum.

Þetta kemur m.a. fram í svari heilbrigðisráðherra á Alþingi við fyrirspurn Guðrúnar Ögmundsdóttur, alþingismanns, um alnæmissmit. Segir þar að mikils sé um vert að viðhalda góðum árangri í baráttunni við alnæmi og draga úr mikilli tíðni tíðni klamýdíusýkinga en hún er meiri hér á landi en annars staðar á Norðurlöndum.

Heilbrigðisráðherra beindi þeirri fyrirspurn til sóttvarnaráðs hver yrði væntanlegur kostnaður við kaup á smokkum. Í svari sóttvarnalæknis kemur fram að kaup á um 200.000 smokkum til ókeypis dreifingar sem tilraunaverkefni meðal áhættuhópa gætu numið um 10–12 milljónum króna á ári hverju. Dreifing ókeypis smokka er talin hafa gefist vel sums staðar á Norðurlöndum.

Einnig hafa verið ræddar hugmyndir um að auðvelda aðgengi að sprautum og nálum fyrir fíkniefnaneytendur sem sprauta sig. Ráðuneytið er með þessar hugmyndir til skoðunar en endanleg ákvörðun hefur ekki verið tekin.

Fram kemur í svarinu að fram til 1. desember á síðasta ári höfðu greinst 183 sjúklingar með alnæmissmit. Af þeim eru 141 karl en 42 konur. Af þeim höfðu 92 eða helmingur smitast við kynmök samkynhneigðra, 63 við – kynmök gagnkynhneigðra 63, eða 34%, 20 með fíkniefnaneyslu um æð og fjórir höfðu smitast við blóðgjöf en það gerðist fyrir árið 1985. Þá var eitt tilfelli þar sem barn smitaðist af móður og í þremur tilvikum er ekki vitað um smitleið.

Svar heilbrigðisráðherra

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert