Ný vél Iceland Express flýgur yfir Reykjavík í dag

Flugvél í litum Iceland Express.
Flugvél í litum Iceland Express.

Í dag kemur til landsins fyrsta flugvélin af þremur nýjum flugvélum sem Iceland Express er að taka í notkun. Mun vélin fljúga í hring yfir höfuðborgarsvæðið í dag og taka aðflug að Reykjavíkurflugvelli áður en haldið verður áfram til lendingar í Keflavík. Áætlað er að vélin verði yfir Reykjavík um kl. 14:05.

Nýju vélarnar eru af gerðinni MD–90 og eru bæði stærri og nýrri en þær vélar sem félagið hefur haft yfir að ráða til þessa.

Í þessari viku eru 3 ár liðin frá fyrsta flugi Iceland Express. Í upphafi var flogið til London og Kaupmannahafnar, en í sumar flýgur Iceland Express til 8 áfangastaða í Evrópu.

Í tilefni af komu flugvélarinnar gefst áhugafólki um flug og ljósmyndun kostur á að taka þátt í samkeppni um bestu ljósmyndina af vélinni á flugi yfir borginni. Að sögn Iceland Express fær höfundur bestu myndarinnar tvo flugmiða með félaginu að launum. Iceland Express áskilur sér rétt til að nota þær myndir sem sendar verða inn. Myndum má skila inn til Iceland Express, Efstalandi 26, 108 Reykjavík, eða á netfangið myndakeppni@icelandexpress.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert