Þeim sem látast af vímuefnanotkun fjölgað hratt

Eftir Sunnu Ósk Logadóttur sunna@mbl.is
Á ÁRUNUM 2002 til 2005 létust 47 af fyrrverandi skjólstæðingum líknarfélagsins Byrgisins af völdum vímuefnanotkunar. Er þetta mikil fjölgun frá því sem var árin á undan en Byrgið hóf starfsemi árið 1997. Guðmundur Jónsson, forstöðumaður Byrgisins, telur að fjölgunina megi rekja til fækkunar meðferðarplássa í landinu, en með flutningi Byrgisins frá Rockville á Reykjanesi og að Ljósafossi í Grímsnesi árið 2003 fækkaði plássum um 40. Á sama tíma var Gunnarsholti lokað en þar voru um 20 pláss.

Guðmundur segir að á tímabilinu 1998-2001 hafi 27 af skjólstæðingum sínum látist vegna vímuefnanotkunar eða tæplega sjö á ári, en á árunum 2002-2005 létust að meðaltali 11 á ári, eða tæplega einn einstaklingur á mánuði.

Hann segir meðalaldur þeirra sem látist hafa, sem er rúmlega 47 ár, staðfesta athugun Byrgisins á því að eftir að fólk endi á götunni lifi það að meðaltali aðeins í sjö ár.

Guðmundur segir fráleitt að það séu aðeins 49 heimilislausir einstaklingar, líkt og fram hafi komið í skýrslu starfshóps félagsmálaráðuneytisins fyrir áramót, þeir séu margfalt fleiri.

"Húsnæðislausum vímuefnaneytendum hefur síst fækkað heldur hefur þeim fjölgað umtalsvert," bendir Guðmundur á. "Það virðist alveg gleymast í könnunum þessum að kanna hversu margt ungt fólk á aldrinum 15-25 ára er á götunni í dag og þvælist húsa í milli í leit að húsaskjóli í næsta dópgreni."

Hann segir að sífellt yngra fólk komi til meðferðar í Byrginu og biðlistar séu langir. Þetta megi m.a. rekja til sprengingar á notkun amfetamíns og kókaíns fyrir nokkrum árum. Guðmundur bendir á að nauðsynlegt sé fyrir þetta unga fólk að fá tækifæri til að fóta sig aftur í lífinu. Margir af ungum skjólstæðingum hans séu í slæmu ástandi þegar þeir komi í Byrgið en þeim býðst m.a. að stunda nám í Fjölbrautaskóla Suðurlands og það gefi þeim mörgum hverjum von á nýjan leik.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert