Sumar og vetur frusu víða saman

Sumardeginum fyrsta verður fagnað með skrúðgöngum í dag.
Sumardeginum fyrsta verður fagnað með skrúðgöngum í dag. mbl.is/Einar Falur

Sumardagurinn fyrsti er í dag. Frost var víða um land klukkan 6 í morgun en samkvæmt þjóðtrú veit það á gott sumar ef sumar og vetur frjósa saman. Þannig var 0,4 stiga frost í Reykjavík, 5,8 stiga frost á Hveravöllum, 4,1 stig í Bolungarvík, 1,8 stig á Akureyri og 3,1 stig á Akurnesi. 3,8 stiga hiti var hins vegar á Stórhöfða í Vestmannaeyjum. Gert er ráð fyrir hlýnandi veðri í dag.

Sumardagurinn fyrsti er í almanakinu talinn annar fimmtudagur eftir Leonisdag sem er 11. apríl hvert ár eða með öðrum orðum fyrsti fimmtudagur eftir þann 18. Hann er því aldrei fyrr en 19. apríl og ekki síðar en þann 25.

Fjallað er um sumardaginn fyrsta á vef Veðurstofunnar og segir þar, að dagurinn hafi verið vel valinn af forfeðrunum því um þetta leyti skipti á milli kaldari og hlýrri hluta ársins. Sömuleiðis verði á þessum tíma árviss fjörbrot vetrarins í háloftunum yfir landinu og sumarið taki við og þá dragi að jafnaði mjög úr afli veðurkerfa.

Hæsti hiti sem mælst hefur í Reykjavík á sumardaginn fyrsta frá 1949 að telja er 13,5°C árið 1998. Ámóta hlýtt var á sumardaginn fyrsta 2004. Á sumardaginn fyrsta 1956 fór hiti ekki niður fyrir 8 stig allan sólarhringinn og 9 sinnum hefur hámarkshitinn verið yfir 10 stig.

Kaldast var 1949 en þá fór lágmarkshiti sólarhringsins í -8,9°C. Daginn áður var mikið hríðarveður um stóran hluta landsins og samgöngur erfiðar. Meðalhiti sólarhringsins hefur 12 sinnum verið undir frostmarki á sumardaginn fyrsta í Reykjavík og frost hefur verið 21 sinnum nóttina áður. Það hefur gerst fjórum sinnum á tímabilinu frá 1949 að hiti hefur ekki komist upp fyrir frostmark á sumardaginn fyrsta, 1949, en þá var sólarhringshámarkið -2 stig, og 1951 var hámarkshiti á sumardaginn fyrsta -0,8 stig. Árin 1967 og 1983 var hámarkshitinn 0°C.

Umfjöllun Veðurstofunnar um sumardaginn fyrsta

Dagskrá sumardagsins fyrsta í Reykjavík

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert