Færeyska lögþingið samþykkir fríverslunarsamning við Ísland

Færeyska lögþingið staðfesti í gær fríverslunarsamninginn við Ísland, svonefndan Hoyvíkursamning. Lagafrumvarp um fullgildingu samningsins var samþykkt með 24 atkvæðum gegn tveimur en fjórir sátu hjá, að sögn færeyska útvarpsins. Skrifað var undir samninginn á síðasta ári, en hann bíður enn staðfestingar hér á landi og í Danmörku.

Hoyvíkursamningurinn er víðtækasti fríverslunarsamningur sem Ísland hefur gert til þessa. Samningurinn tekur meðal annars til vöruviðskipta, þjónustuviðskipta, frjálsrar farar fólks og búseturéttar, fjármagnsflutninga og fjárfestinga, samkeppni, ríkisaðstoðar og opinberra innkaupa. Þá tekur samningurinn einnig til fullrar fríverslunar með landbúnaðarvörur en Ísland hefur aldrei áður samið um fulla fríverslun með landbúnaðarvörur. Samningurinn leggur einnig bann við mismunun af öllu tagi.

Færeyingar og færeysk fyrirtæki skulu því njóta sömu réttinda á Íslandi og Íslendingar og íslensk fyrirtæki og það sama gildir um Íslendinga og íslensk fyrirtæki í Færeyjum. Samningnum er einnig ætlað að skapa ramma utan um aukna samvinnu milli landanna á ýmsum öðrum sviðum eins og í menningarmálum, orkumálum, umhverfismálum, heilbrigðismálum, fjarskiptum og ferðaþjónustu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert