Þjóðminjasafnið með bestu söfnum Evrópu

Endurgerð Þjóðminjasafnsins þótti takast ákaflega vel.
Endurgerð Þjóðminjasafnsins þótti takast ákaflega vel. mbl.is/Golli

Í gærkvöldi voru tilkynnt úrslit í samkeppni Evrópuráðs um safn Evrópu árið 2006 í Ayuda-höllinni í Lissabon og var Þjóðminjasafn Íslands eitt þriggja safna sem hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur. Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður var viðstödd athöfnina í gær er Fabía drottning Belgíu afhenti verðlaunin, en Fréttavefur Morgunblaðsins náði tali af henni er hún millilenti í London á leið sinni heim aftur. „Þetta er mikil viðurkenning fyrir Þjóðminjasafnið því með þessu er það sett í hóp bestu safna í Evrópu og þykir hafa náð framúrskarandi árangri," sagði Margrét.

60 söfn voru tilnefnd og 35 komust í úrslit og að lokum voru fjögursöfn sem þóttu hafa náð framúrskarandi árangri og var Cosmo Caixa vísindasafnið í Barcelóna valið safn ársins 2006. Hin söfnin þrjú fengu sérstaka viðurkenningu, þar á meðal Þjóðminjasafn Íslands og listasafn í Árósum í Danmörku og Náttúruminjasafn í Austurríki.

„Þetta er ein mesta viðurkenning sem safn getur hlotið og var sérstaklega minnst á að við hefðum komið með nýjungar sem stuðla að framförum í safnastarfi í Evrópu og dómnefndin tók fram að hjá Þjóðminjasafninu væru nýjar áherslur sem brúuðu nútíð og fortíð og sýndu að við værum spegill bæði sögunnar og samtíma sem bæði vekti umræðu og veitti almenningi aðgang að menningararfinum með fjölbreyttum og aðgengilegum sýningum og var okkur einnig hrósað fyrir aðgengi og að safnið tæki vel á móti öllum gestum og væri með góða þjónustu og faglegt starf almennt," sagði Margrét.

Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður var að vonum ákaflega ánægð með viðurkenninguna.
Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður var að vonum ákaflega ánægð með viðurkenninguna. mbl.is/Ásdís
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert