Stuttmyndir grunnskólanema verðlaunaðar

Mikil spenna ríkti á stuttmyndahátíð grunnskólanema Taka 2006 í Réttarholtsskóla í dag, en þar kepptu 40 myndir til verðlauna. Alls voru veitt tíu verðlaun á hátíðinni, en keppt var í þremur flokkum; hreyfimyndagerð, leiknum stuttmyndum og heimildamyndagerð. Einnig voru veitt verðlaun fyrir myndatöku, klippingu, tónlist og leik.

Þriggja manna dómnefnd valdi myndina Skæra-Siggu, sem unnin var af nemendum í Álftamýrarskóla, bestu hreyfimyndina, en hún þótti sérlega norsturslega útfærð í teikningu, frásögn og tæknivinnslu. Í flokki leikinna stuttmynda, gerða af nemendum undir 12 ára aldri, fór myndin Vandamál úr Vesturbæjarskóla með sigur af hólmi, en höfundar hennar og aðalleikarar, Árni Beinteinn og Lilja Björk Jónsdóttir, fengu jafnframt viðurkenningu fyrir skemmtilegan og kraftmikinn leik. Chips, sem gerð var af nemendum í Austurbæjarskóla, var valin besta stuttmynd nemenda eldri en 12 ára. Hún fékk jafnframt viðurkenningu fyrir myndatöku og klippingu. Um Kolfinnu var valin besta myndin í flokki heimildamynda, en hún var einnig gerð af eldri nemendum í Austurbæjarskóla.

Stuttmyndahátíð grunnskólanna í Reykjavík fagnar nú 25 ára afmæli. Fyrsta keppnin var haldin á vegum ÍTR og var þá myndað á 8mm filmu sem þurfti að senda til útlanda í framköllun. Nú eru allar myndir unnar stafrænt. Fyrstu árin var keppt í einum aldursfokki en nú er keppt í tveimur flokkum, 10–12 ára og 13–16 ára, og er mikil breidd í efnisvali, handritsgerð og tæknivinnslu, að því er segir í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert