Byrjað að gefa út vegabréf með örgjörva

Hafin hefur verið útgáfa á nýjum íslenskum vegabréfum með örgjörva, sem geymir sömu upplýsingar og eru sjáanlegar í vegabréfinu. Nýju vegabréfunum svipar mjög til þeirra gömlu að viðbættri plastsíðu með örgjörvanum og uppfylla þau kröfur um öryggi, sem gerðar eru beggja vegna Atlantshafsins.

Að sögn dómsmálaráðuneytisins falla engin gild vegabréf úr gildi, þótt farið verði að framleiða nýja gerð vegabréfa og verð fyrir vegabréf verður óbreytt frá því sem verið hefur.

Sú breyting verður, að sækja má um vegabréf hjá sýslumönnum um allt land og Lögreglunni í Reykjavík, án tillits til þess hvert lögheimili umsækjandans er

. Umsækjanda er heimilt að koma með eigin ljósmynd frá ljósmyndara í rafrænu formi. Þó mun ávallt fara fram myndataka á sama á stað og tíma og sótt er um vegabréf, sú myndataka telst til öryggisatriða nýju vegabréfanna og er umsækjanda að kostnaðarlausu.

Framleiðsla vegabréfanna er í Reykjanesbæ og þar verður einnig hægt að nálgast vegabréf sem fengið hafa hraðafgreiðslu.

Vegabréf.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert