Látinn hætta pólitískum skrifum fyrir Fréttablaðið

Jóhann Hauksson.
Jóhann Hauksson.

Jóhann Hauksson blaðamaður á Fréttablaðinu var í vikunni kallaður á fund Þorsteins Pálssonar, ritstjóra Fréttablaðsins, og Sigurjóns M. Egilssonar, fréttaritstjóra, og tjáð að ákveðið hefði verið að hann hætti pólitískum skrifum fyrir blaðið. Jóhann hefur skrifað fréttir um stjórnmál og innlendar fréttir auk þess að skrifa pistla.

Jóhann segist hafa fengið þá skýringu frá Þorsteini að mönnum þætti sem hann blandaði saman skoðunum sínum og fréttaskrifum. Þá hafi Þorsteinn og Sigurjón gefið í skyn að „ég hafi farið yfir strikið í skrifum mínum um Björn Bjarnason í dálkinum Frá degi til dags og á stjórnmálasíðunni,“ segir Jóhann. Málið tengist símahlerunum á tímum kalda stríðsins sem Guðni Th. Jóhannesson, sagnfræðingur, hefur rannsakað og voru í fréttum á dögunum.

Eftir dálk sem birtist 2. júní ritaði Björn bréf til Þorsteins og sagði Jóhann þar hafa ráðist með ómaklegum hætti að Bjarna Benediktssyni föður sínum vegna símhleranamálsins. Í dálkinum kom fram að Bjarni hefði verið sá dómsmálaráðherra sem mestu réð um símahleranirnar á sínum tíma.

Jóhann sem fundaði með ritstjóranum og fréttaritstjóranum vegna málsins á þriðjudag og miðvikudag, segir að á fundunum hafi kvörtun Björns Bjarnasonar borið á góma. Vantraustsyfirlýsing Hann kveðst hafa mótmælt því að hann blandaði saman skoðunum og fréttaskrifum.

„Ég sagðist hafa áralanga þjálfun í því að aðskilja fréttaskrif frá mínum skoðunum. En ég væri settur í þá sérkennilegu og að mörgu leyti afleitu stöðu á Fréttablaðinu að vera falið að skrifa hlutlægar og hlutlausar fréttir, m.a. af stjórnmálum, en um leið vera falin ábyrgð á allskonar ritstjórnarpistlum,“ segir Jóhann „Það hefur enginn gert athugasemdir við störf mín á blaðinu frá því ég byrjaði,“ bætir hann við. „Ég sagði að mér þætti þetta óþægileg sending frá mínum yfirmönnum sem ekki hafa gert athugasemd við mig svo mánuðum skiptir,“ segir Jóhann. „Ég mótmælti þessu og sagðist líta svo á að veri væri að lækka mig í tign og þetta væri vantraustsyfirlýsing á mín störf,“ segir hann.

Hann bætir því við að til hafi staðið að leiða mál sitt endanlega til lykta í fyrradag, en vegna veikinda sinna hafi ekki orðið af því. Til standi að ljúka málinu á mánudag í næstu viku.

Ekki náðist í Þorstein Pálsson vegna málsins í gær. Sigurjón M. Egilsson, fréttaritstjóri Fréttablaðsins, sagði að mál einstakra starfsmanna og vinnutilhögun á ritstjórn Fréttablaðsins væri einkamál blaðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert