Akstri líklega hætt á einni leið

mbl.is/Ómar

Erfiðlega gengur að manna stöður hjá Strætó bs. vegna sumarfría starfsmanna. Samið hefur verið við verktaka um að manna fleiri strætisvagnaleiðir en enn vantar starfsmenn til að manna sex eða sjö stöður. Forstjóri Strætós bs. segir að e.t.v. þurfi frá og með næsta föstudegi að hætta að keyra eina strætisvagnaleið á höfuðborgarsvæðinu vegna þessa, eða leið S5.

Ásgeir Eiríksson, forstjóri Strætós bs., segir að fyrirtækinu hafi alltaf tekist að fá bílstjóra til að starfa í afleysingum á sumrin. Eins og síðasta sumar keyra stofnleiðir Strætós ekki á 10 mín. fresti á annatímum.

"Það er til marks um hvað ástandið er erfitt á markaðnum að við höfum verið að ráða 50-60 sumarafleysingamenn en þurftum bara að ráða 15 í sumar. Okkur tókst að ráða 4."

Ásgeir telur að þensla á vinnumarkaði og miklar framkvæmdir orsaki einkum þennan vanda Strætós bs. enda séu mörg tækifæri fyrir ökumenn stórra ökutækja á vinnumarkaðnum í dag.

Leitað hefur verið til þeirra verktaka sem aka fyrir Strætó og þess óskað að þeir bæti við sig nokkrum leiðum. Þeir hafa náð að bæta við sig leiðum en enn vantar starfsfólk til að manna eina strætisvagnaleið. Ásgeir segir að frá og með næsta föstudegi þurfi Strætó bs. því að skerða þjónustu við farþega ef ekki takist að brúa bilið. Hann gerir ráð fyrir að þá verði hætt að keyra leið S5, frá Selásbraut í Árbæ niður í miðbæ Reykjavíkur. Ásgeir segir að lagst hafi verið yfir leiðakerfið og komist að því að þjónustan skerðist minnst með þessum hætti fyrir farþegana.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert