"Barði húddið eins og óður maður"

Lögreglan á Egilsstöðum segir alranga þá fullyrðingu Ólafs Páls Sigurðssonar um að lögreglan á Egilsstöðum hafi gert tilraun til að keyra yfir hann við fjölskyldubúðir Íslandsvina nálægt Kárahnjúkavirkjun á mánudag. Ólafur Páll sagðist í samtali við Morgunblaðið á mánudag ætla að kæra lögreglumennina fyrir athæfið en Óskar Bjartmarz, yfirlögregluþjónn á Egilsstöðum, segir enga kæru komna frá Ólafi. Hins vegar verði Ólafur sjálfur kærður fyrir að skemma bíl lögreglunnar.

"Þetta er uppspuni hjá Ólafi. Bílaleigubíll lögreglunnar var stopp og Ólafur kom æðandi að með alþjóðlegt fingurmerki á lofti og lögreglumennirnir héldu að hann ætlaði kannski að ræða eitthvað við þá. En hann fór beint fram fyrir bílinn og lagði hendur á húddið. Bíl lögreglunnar var þá ekið hægt af stað og þá barði hann húddið eins og óður maður og vék til hliðar og barði bílinn eftir allri hliðinni.

Hann tók sér síðan stein í hönd til að grýta bílinn en þá juku lögreglumennirnir hraðann til að komast úr kastfæri. Þeir sneru síðan við og þá var hann búinn að kalla til fleira fólk til að hindra förina. Það var síðan skálavörður [í Snæfellsskála] sem fékk fólkið til að víkja frá. Hann verður kærður þegar í hann næst fyrir að valda skemmdum á bílnum."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert