Börn valin til þátttöku á San Sebastian kvikmyndahátíðinni

Veggspjald kvikmyndarinnar Börn.
Veggspjald kvikmyndarinnar Börn.

Íslenska kvikmyndin Börn hefur verið valin til þátttöku á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í San Sebastian á Spáni. Ragnar Bragason leikstýrði kvikmyndinni sem er framleidd af Vesturporti. Kvikmyndahátíðin fer fram 21.-30. september næstkomandi en hátíðin hefur verið haldin árlega frá árinu 1953 og þykir ein sú virtasta í heiminum.

Börn keppir í flokknum Zabatelgi-New Directors sem inniheldur áhugaverðustu kvikmyndirnar í alþjóðlegri kvikmyndagerð hvert ár eftir unga leikstjóra. 17 aðrar kvikmyndir eru í þeim flokki. Börn keppir um Altadis-New Directors verðlaunin, hæstu einstöku peningaverðlaun sem í boði eru á kvikmyndahátíð í heiminum og einnig Montblanc verðlaunin fyrir besta handrit ársins, að því er segir í tilkynningu frá framleiðendum.

Kvikmyndin Börn verður frumsýnd á Íslandi þann 14. september næstkomandi. Í aðalhlutverkum eru Gísli Örn Garðarsson, Nína Dögg Filippusdóttir og Ólafur Darri Ólafsson. Börn er sjálfstæður fyrri hluti tvíleiks Ragnars Bragasonar og Vesturports um samskipti foreldra og barna. Seinni myndin, Foreldrar, verður frumsýnd síðar á árinu.

Vefsíða hátíðarinnar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert