Hassið fannst við gegnumlýsingu

Íslendingur sem handtekinn var á flugvellinum í Sao Paulo í Brasilíu í fyrradag, sakaður um að hafa reynt að smygla rúmum 12 kílóum af hassi og fjórum e-töflum til landsins, er 29 ára karlmaður, og á að baki brotaferil hér á landi. Hann hefur verið ákærður fyrir innflutning á ávana- og fíkniefnum.

Maðurinn var einn á ferð, og engir meintir vitorðsmenn hafa verið handteknir, segir José Williams Machado de Souza, upplýsingafulltrúi Brasilísku ríkislögreglunnar. Hann segir að manninum verði haldið í varðhaldi þar til dómur verði kveðinn upp.

Fíkniefnin fundust í hátalaraboxi sem maðurinn var með í farangri sínum, en við gegnumlýsingu á boxinu fundust margar pakkningar sem innihéldu samtals 12,2 kíló af hassi. Við nákvæmari leit fundust svo fjórar e-töflur í handfarangri mannsins.

Á vef eins stærsta dagblaðs Sao Paulo kom í gær fram að þetta sé ekki fyrsta heimsókn Íslendingsins til Brasilíu, en þetta sé hins vegar í fyrsta skipti sem hann komi við sögu lögreglu þar í landi.

Pétur Ásgeirsson, skrifstofustjóri almennrar skrifstofu utanríkisráðuneytisins, staðfesti í gærkvöldi að lögregluyfirvöld í Sao Paulo hefðu handtekið íslenskan karlmann og gefið honum að sök að hafa reynt að smygla rúmum 12 kílóum af hassi til Brasilíu. Pétur segir að ræðismaður Íslands í Sao Paulo hafi að undanförnu verið í sambandi við lögregluyfirvöld þar í borg vegna málsins. Aðspurður hvort maðurinn verði framseldur til Íslands, hljóti hann refsingu í Brasilíu, segir Pétur alltof snemmt að ræða það, menn hafi vissulega verið framseldir til Íslands, en ráðuneytið sé ekki farið að velta þeirri hlið málsins fyrir sér.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert