Landlæknir og framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja til starfa í Malaví

Sigurður Guðmundsson
Sigurður Guðmundsson

Sigríður Snæbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, og Sigurður Guðmundsson, landlæknir, halda í október til ársdvalar í Malaví. Þar munu þau vinna að uppbyggingu heilbrigðisþjónustu á svæðinu og hrinda í framkvæmd áætlunum á vegum ÞSSÍ. Þróunarsamvinnustofnun hefur veitt fé og tæknilega aðstoð við uppbyggingu heilbrigðisþjónustu á Monkey Bay svæðinu í Malaví frá árinu 2000.

Markmiðið er að styðja malavísk stjórnvöld í uppbyggingu heilbrigðisþjónustu á svæðinu sem tekur sem er í samræmi við þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Um er að ræða heilbrigðisþjónustu við rúmlega 110 þúsund manns sem hafa aðgang að fjórum heilsugæslustöðvum og sjúkrahúsi.

Þróunarsamvinnustofnun og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið kynntu fréttamönnum í dag uppbyggingu heilbrigðisþjónustu í Malaví og Sigríður og Sigurður gerðu grein fyrir þeim verkefnum sem þau munu vinna að. Fram kom í máli Sivjar Friðleifsdóttur, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, á fundinum að heilbrigðisyfirvöld væru afar stolt af því að eiga þátt í að geta sent tvo þrautreynda fulltrúa íslensku heilbrigðisþjónustunnar til starfa í Malaví.

Matthías Halldórsson, aðstoðarlandlæknir, mun leysa Sigurð af sem landlæknir á meðan hann er við störf í Malaví en ekki liggur fyrir hver leysi Sigríði af á Suðurnesjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert