Steingrímur spyr hvort sumir stjórnmálamenn geti sett skilyrði fyrir þátttöku í umræðum um þjóðmál

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon.

Steingrímur J. Sigfússon, alþingismaður, hefur sent Páli Magnússyni, útvarpsstjóra, opið bréf þar hann spyr hvor útvarpsstjóri telji réttlætanlegt að sumir stjórnmálamenn geti skilyrt og stýrt þátttöku sinni í umræðum um þjóðmál á vettvangi Sjónvarpsins og sé svo, hvernig hyggist þá RÚV uppfylla ákvæði laga um „fyllstu óhlutdrægni“ og að vera vettvangur fyrir „mismunandi skoðanir“ við slíkar aðstæður?

Bréf Steingríms er eftirfarandi:

    Hr. útvarpsstjóri Páll Magnússon

    Opið bréf !

    Ég tel rétt að deila með þér og öðrum þeim sem áhuga hafa reynslu minni af samskiptum við aðstandendur umræðuþáttarins Kastljóss í stofnun þinni í gær. Um kl. 10,00 í gærmorgun hringdi einn af stjórnendum Kastljóssins í mig og falaðist eftir mér í þáttinn þá um kvöldið. Ætlunin var að ég yrði þar ásamt Valgerði Sverrisdóttir fyrrv. iðnaðarráðherra til að ræða um meðferð ráðherrans og ráðuneytisins á greinargerð Gríms Björnssonar um Kárahnjúkavirkjun og e.t.v. fleiri tengd atriði. Ég féllst fúslega á þetta enda ærin tilefni til að ræða málið. Það var síðan undir kvöld, nánar tiltekið um kl. 18,00 að við þáttarstjórnandinn töluðum aftur saman í síma og tjáði hann mér þá frekar daufur í dalkinn að því er virtist að ekki yrði af þessu. Ég skildi það þannig að umræðuefnið hefði verið tekið af dagskrá þáttarins og kvaddi við svo búið. Ég átti því á flestu öðru von en að frétta seinna um kvöldið að fyrrv. iðnaðarráðherra hefði mætt ein í Kastljósið og flutt þar málsvörn sína óáreitt í einræðum. Þar vitnaði ráðherra m.a. ítrekað í mig með ómálefnalegum hætti að mér fjarstöddum og gerði stjórnarandstöðunni upp hvatir í málinu.

    Ég verð að segja útvarpsstjóri góður að ég veit ekki hvort þessi uppákoma, sem ég hef ærna ástæðu til að ætla að sé ekki einsdæmi, er verri og meira niðurlægjandi fyrir ráðherrann eða Ríkisútvarpið. Ráðherra sem ekki þorir að mæta stjórnmálaandstæðingum í rökræðum gefur auðvitað með því sjálfum sér og/eða málstað sínum falleinkunn. Hitt er líka ofboðslegt að verða vitni að því að Ríkisútvarpið skuli þjóna valdinu með þessum hætti og láta það eftir ráðherranum að ryðja andstæðingi í stjórnmálum og talsmanni ólíkra sjónarmiða út úr umræðuþætti. Til þess eins, og aðeins þess, að ráðherrann geti þar flutt sína aumlegu málsvörn án andsvara. Með þessu bregst RÚV að mínu mati skyldu sinni um að standa fyrir upplýstri umræðu þar sem gagnstæðum sjónarmiðum er gert jafn hátt undir höfði sbr. t.d. 2. og 3. málsl. 3. gr. útvarpslaga en þar segir eins og þú manst:

    „Ríkisútvarpið skal halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og mannréttindi og frelsi til orðs og skoðana. Það skal gæta fyllstu óhlutdrægni í frásögn, túlkun og dagskrárgerð.

    Ríkisútvarpið skal m.a. veita almenna fréttaþjónustu og vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á þeim málum sem efst eru á baugi hverju sinni eða almenning varða.“

    Við höfum báðir trúi ég heyrt af því sögur að gagnrýnir og harðskeyttir fjölmiðlar erlendis meðhöndli eða siði til þá sem gera tilraunir til að „stýra“ umfjöllun fjölmiðla á þennan veg, þ.e. með því að velja sér viðmælendur eða að neita að mæta nema þá einir. Það er þá gert með því að hafa stól þeirra tóman í þættinum og skýra frá því að viðkomandi hafi ætlað að setja þátttöku sinni óaðgengileg skilyrði, eða með því að láta rödd viðkomandi vanta en taka fram að honum eða henni hafi boðist að vera með en ekki þegið. Ég vil því að lokum spyrja; telur þú réttlætanlegt að sumir stjórnmálamenn geti með þessum hætti skilyrt og stýrt þátttöku sinni í umræðum um þjóðmál á ykkar vettvangi og ef svo er, hvernig hyggst þá RÚV uppfylla ákvæði laga um „fyllstu óhlutdrægni“ og að vera vettvangur fyrir „mismunandi skoðanir“ við slíkar aðstæður?

    virðingarfyllst

    Steingrímur J. Sigfússon

Samrit til fjölmiðla
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert