Samfylkingin vill slá frekari stóriðjuframkvæmdum á frest

mbl.is/ÞÖK

Samfylkingin vill styrkja stöðu náttúru- og umhverfisverndar á Íslandi. Því leggur flokkurinn til markvissar aðgerðir sem byggjast á forsendum sjálfbærrar þróunar og skýrri framtíðarsýn, að því er segir í tillögum Samfylkingar í náttúruverndar- og umhverfismálum.

„Samfylkingin telur að nú sé sérstaklega mikilvægt að rétta hlut náttúruverndar á Íslandi gagnvart hagsmunum stóriðju, sem hefur notið algers forgangs í atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar undanfarinn áratug. Íslensk náttúra hefur farið halloka í þeim leik – nú þarf að skapa nýjar leikreglur í samræmi við verðmæti náttúrunnar og tilfinningar þjóðarinnar til landsins," að því er segir í tillögum Samfylkingarinnar.

Í kjölfar Kárahnjúkavirkjunar er tímabært að Íslendingar skipti um gír, tryggi jafnræði atvinnugreina og byggi skipulega upp atvinnulíf framtíðarinnar þar sem náttúrugæði landsins eru nýtt með sjálfbærum hætti. Samfylkingin leggur til að við núverandi aðstæður verði frekari stóriðjuáformum slegið á frest. Nú þarf áhersla á hátækni- og þekkingariðnað að haldast í hendur við nýsköpun í ferðaþjónustu og hefðbundnu atvinnugreinunum, sjávarútvegi og landbúnaði, segir jafnframt í tillögum Samfylkingarinnar sem kynntar voru á blaðamannafundi í dag.

Samfylkingin leggur fram tillögur þar sem meðal annars er gert ráð fyrir átaki við rannsóknir og verndaraðgerðir með „Rammaáætlun um náttúruvernd“. Við bendum á einstök náttúrusvæði og -minjar sem mikilvægt er að vernda hið fyrsta.

„Við viljum stórátak til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á næstu árum, og við leggjum einnig til aðgerðir sem tryggja almenningi og félagasamtökum hans sterkari stöðu og meiri áhrif en verið hefur í umhverfis- og náttúruverndarmálum," samkvæmt tillögum Samfylkingarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert