Ósambærilegar tölur

Orkuveituhúsið
Orkuveituhúsið mbl.is/ÞÖK

Alfreð Þorsteinsson, fyrrverandi stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, segir algjörlega fráleitt að gefa það í skyn að kostnaður við byggingu nýrra höfuðstöðva OR hafi farið 4.000 milljónum fram úr áætlun. Það hafi heldur aldrei verið gert ráð fyrir að söluverð eldri eigna myndi duga fyrir byggingu nýrra höfuðstöðva.

Alfreð segir að öllum innan borgarkerfisins hafi verið það ljóst að upphafleg kostnaðaráætlun ætti aðeins við um skrifstofubygginguna sem nú er risin við Bæjarháls. Þegar hafist var handa við byggingu hússins hafi þegar verið búið að kaupa svonefnt Norðurhús og kostnaður vegna þess hafi því aldrei verið inni í kostnaðaráætlun vegna skrifstofubyggingarinnar. Það væru því engar forsendur til þess að bæta kostnaði vegna Norðurhúss inn í samanburð við upphaflegu kostnaðaráætlunina. Sama ætti við um tengibygginguna, kostnaður vegna hennar hefði verið inni í áætlunum um Norðurhús en ekki skrifstofubyggingarinnar. "Menn verða að bera saman sambærilega hluti," segir Alfreð. "Það var bara gerð kostnaðaráætlun um þessa skrifstofubyggingu og í ársbyrjun 2005 nam kostnaðurinn tæplega 3,3 milljörðum, eða 500-600 milljónum meira en áætlanir gerðu ráð fyrir."

Þegar hornsteinn var lagður að nýrri skrifstofubyggingu OR við Réttarháls árið 2002 var sagt að kostnaður við húsið myndi nema 2,3 milljörðum. Alfreð segir að seinna hafi verið ákveðið að stækka húsið um 1.000 fermetra og vegna þess hafi verið gerð ný kostnaðaráætlun sem hafi, framreiknuð á verðlag 1. janúar 2003, numið tæplega 2,7 milljörðum. Kostnaðurinn nam á endanum tæplega 3,3, milljörðum, 588 milljónum meira en áætlunin gerði ráð fyrir.

Á blaðamannafundi sem Alfreð og Guðmundur Þórhallsson, forstjóri OR, héldu í janúar 2005 var sagt að heildarkostnaður vegna höfuðstöðvanna væri 4,2 milljarðar.

Guðlaugur Þór Þórðarson, stjórnarformaður OR, greindi hins vegar frá því í gær að heildarkostnaður væri 5,8 milljarðar miðað við áramótin 2005/2006.

Tæplega 600 milljónir skýrast af því að Guðlaugur Þór tekur tillit til kostnaðar við innréttingar í skrifstofubyggingunni en það gerðu þeir Alfreð og Guðmundur ekki. Aðspurður segir Alfreð að ekki sé venjan að taka tillit til innréttinga í kostnaðaráætlunum sem þessum.

En jafnvel þó að kostnaður við innréttingar sé ekki inni í tölum Guðlaugs Þórs munar enn um einum milljarði króna. Spurður um hvernig standi á því segir Alfreð að hann hafi ekki séð þessar tölur Guðlaugs Þórs, en eftir þeim upplýsingum sem hann hafi fengið hjá forstjóra OR, skýrist munurinn á því að Guðlaugur taki tillit til ýmissa þátta sem ekki hafi verið í kostnaðaráætlun og hafi ekki átt þar heima, t.a.m. búnaður fyrir verkstæði, vararafstöð og fleira.

Dýrar framkvæmdir 2005

KOSTNAÐUR við skrifstofubyggingu Orkuveitu Reykjavíkur við Bæjarháls, tengibyggingu, bílastæðahús og lóð var 4.323 milljónir og innréttingar í skrifstofubyggingunni kostuðu 582 milljónir, samkvæmt upplýsingum frá Guðlaugi Þór Þórðarsyni, stjórnarformanni OR. Samtals eru þetta 4,9 milljarðar og þegar kostnaði við Norðurhús er bætt við nemur kostnaður við höfuðstöðvarnar tæplega 5,9 milljörðum.

Þetta er langtum meira en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir og einnig mun hærri tala en Alfreð Þorsteinsson, fyrrverandi stjórnarformaður, og Guðmundur Þórhallsson, forstjóri OR, kynntu í janúar 2005. Þá verður að hafa hugfast að tölur Guðlaugs Þórs taka einnig til framkvæmda á árinu 2005.

Á blaðamannafundi Alfreðs og Guðmundar var greint frá því að kostnaður við skrifstofubygginguna hefði verið tæplega 3,3 milljarðar og þegar kostnaði við tengibyggingu, bílastæðahús og lóð er bætt við nam kostnaðurinn rúmlega 3,7 milljörðum.

Samtals munar því 1,2 milljörðum á þeirri tölu sem Guðlaugur Þór nefnir sem kostnað við þessar byggingar og þeirrar niðurstöðu sem Alfreð og Guðmundur kynntu.

Þá á eftir að fjalla um kostnað við svonefnt Norðurhús sem tilheyrir höfuðstöðvunum ásamt hinum byggingunum. Að sögn Guðlaugs Þórs nam kostnaður við það hús 979 milljónum en á blaðamannafundinum í janúar 2005 var sagt að kostnaður við breytingar á Norðurhúsi hefði numið 125 milljónum en húsið verið keypt á 397 milljónir, samtals var kostnaðurinn því 522 milljónir.

Þegar allt er dregið saman segir Guðlaugur Þór að heildarkostnaður við höfuðstöðvarnar hafi numið 5.885 milljónum en á blaðamannfundinum í janúar 2005 kom fram að heildarkostnaður hefði numið 4.256 milljónum. Munurinn er um 1,6 milljarðar, þar af eru tæplega 600 milljarðar eingöngu vegna innréttinga í skrifstofu.

Enn munar um einum milljarði og segir Guðlaugur Þór að sá munur skýrist af stórum hluta af miklum kostnaði sem hafi fallið á Norðurhús og fleiri framkvæmdir sem hafi verið unnar á árinu 2005.

Lengi gagnrýnt kostnað

Guðlaugur Þór hefur lengi gagnrýnt mikinn kostnað við byggingu nýrra höfuðstöðva og í viðtali við Morgunblaðið í janúar 2005 gagnrýndi hann harðlega kynningu Alfreðs og Guðmundar á kostnaðartölum. Hann sagði þá m.a. að þegar upphaflega var ákveðið að ráðast í framkvæmdirnar hafi verið sagt að sala á húseignum OR myndi duga fyrir nýrri byggingu. Söluverð þeirra á verðlagi í janúar 2005 hefði numið rúmlega 2,1 milljarði króna. Þá væri blekkjandi að nota einungis kostnað við skrifstofubygginguna enda hefði deilan ekki snúist um það, heldur heildarkostnað.

Yfirlýsing

ALFREÐ Þorsteinsson sendi í gær frá sér eftirfarandi yfirlýsingu: "Í Morgunblaðinu 15. september er viðtal við Guðlaug Þór Þórðarson nýjan stjórnarformann Orkuveitu Reykjavíkur um kostnað við höfuðstöðvar fyrirtækisins á Bæjarhálsi. Er fullyrt að byggingin hafi farið 4 milljarða króna fram úr kostnaðaráætlun. Hér er um svo grófa fölsun að ræða að engu tali tekur. Hið rétta er að deilur um kostnað við nýjar höfuðstöðvar OR snérust um aðalbygginguna en ekki um önnur hús á svæðinu né búnað í byggingunum. Samkvæmt svari forstjóra OR við fyrirspurn sjálfstæðismanna í stjórn OR í ársbyrjun 2005 var kostnaður við aðalbygginguna rúmir 3,2 milljarðar króna en endurskoðuð kostnaðaráætlun nam 2,7 milljörðum króna. Þar skeikar um 500 milljónir króna en ekki 4 milljörðum.

Þá er rétt að halda því til haga að því hefur aldrei verið haldið fram að sala á eldri eignum ætti að dekka allan kostnað við aðalbygginguna heldur ætti söluandvirðið að ganga upp í byggingarkostnað nýrra höfuðstöðva.

Samstarfsflokkur Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn hlýtur að spyrja sig hvort vinnubrögð formanns OR séu til marks um vinnubrögð sem eigi að innleiða á öðrum sviðum.

Alfreð Þorsteinsson fyrrverandi formaður

stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur."

Milljarðar Fyrir utan skrifstofur OR eru sænsk hallargarðstré og er gert ráð fyrir þeim í 5,8 milljarða heildarkostnaði við höfuðstöðvarnar.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert