Hagkaup hættir sölu á spínati frá Bandaríkjunum

Vegna alvarlega sýkinga í Bandaríkjunum sem rakin eru hugsanlega til neyslu á fersku spínati hefur sala á öllu bandarísku spínati verið stöðvuð.  Þetta er gert til að verja neytendur meðan verið að komast að rót vandans.  Þessi vara var fjarlægð úr verslunum á hádegi í gær, laugardag.

Þær tegundir sem seldar eru í verslunum Hagkaupa og innihalda spínat eru frá vörumerkjunum „Hollt og Gott" og „Earthbound Farms".  Neytendur eru hvattir til að skila þeim pokum eða boxum sem þeir kunna að eiga heima í ískáp í næstu verslun og fá hana endurgreidda.

Eins og greint var frá í gærmorgun á Fréttavef Morgunblaðsins lést kona og 94 veiktust vegna þess að kólígerlar fundust í spínati. Meðal annars var um spínat að ræða frá Earthbound Farms, samkvæmt fréttum AFP fréttastofunnar og Reuters.

Spínat undir nafninu „Himnesk Hollusta" er hins vegar valkostur í þessari stöðu þar sem það er ræktað í Hollandi, að því er segir í tilkynningu frá Hagkaupum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert