Ný framkvæmdastjórn SUF kjörin

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar SUF sem kjörin var á þingi sambandsins 16.-17. september, var haldinn í gær. Á fundinum var kjörin framkvæmdastjórn en auk Jakobs Hrafnssonar formanns skipa hana Stefán Bogi Sveinsson varaformaður, Jóhanna Olga Hreiðarsdóttir gjaldkeri, Guðmundur Ómar Hafsteinsson ritari og Fanný Guðbjörg Jónsdóttir ritstjóri.

Einnig voru kjörnir formenn þriggja fastanefnda sambandsins. Eggert Sólberg Jónsson var kjörinn formaður fræðslu- og kynningarnefndar, Auðbjörg Ólafsdóttir formaður utanríkismálanefndar og Ármann Ingi Sigurðsson formaður þjóðmálanefndar.

Á fundinum var samþykkt eftirfarandi ályktun:

„SUF fagnar hugmyndum um verulega lækkun eða afnám virðisaukaskatts á matvæli sem verði framkvæmd í einu þrepi. Telur SUF að þessi leið sé líkleg til þess að skila verðlækkunum til neytenda.

SUF lýsir hins vegar furðu sinni á illa grunduðum tillögum Samfylkingarinnar um afnám tolla á matvöru að hluta til eða öllu leyti, og það jafnvel þegar á þessu ári.

Tillögur Samfylkingarinnar eru hrákasmíð og augljóst að flokkurinn er á hröðum flótta undan meingallaðri umhverfisstefnu sinni, sem lykilmenn í flokknum hafa raunar með yfirlýsingum sínum gert að marklausu plaggi.

Það er hins vegar ekki almenningi í landinu boðlegt að Samfylkingin reyni að draga athygli frá misheppnaðri umhverfisstefnu með því að skella fram á borðið tillögum sem myndu, ef þær kæmu til framkvæmda raska grundvelli stórs hluta matvælaframleiðslu í landinu.

Þær þúsundir Íslendinga sem starfa að framleiðslu og markaðssetningu matvæla úr landbúnaði eiga betra skilið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert