Kristrún Heimisdóttir tekur þátt í prófkjöri Samfylkingarinnar

Kristrún Heimisdóttir
Kristrún Heimisdóttir

Kristrún Heimisdóttir varaþingmaður Reykvíkinga býður sig fram í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík 11. nóvember. Kristrún sækist eftir 5. sæti í prófkjörinu en í Alþingiskosningunum 2003 var hún í 6. sæti á lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður.

Kristrún sem er 35 ára hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu og var lögfræðingur Samtaka iðnaðarins 2002-2006. Hún er nú ritari stjórnar Íþrótta- og ólympíusambands Íslands, stjórnarformaður Afrekssjóðs ÍSÍ og stjórnarformaður Fjölskylduþjónustu kirkjunnar. Kristrún var í matsnefnd sem valdi sigurtillöguna í samkeppni um byggingu Tónlistarhúss í Reykjavík 2005 og á sæti í stjórnarskrárnefnd, í framtíðarhópi Samfylkingarinnar og er varamaður í Seðlabankaráði.

Þess utan hafa henni verið falin ýmis trúnaðar- og forystustörf m.a. fyrir Knattspyrnufélag Reykjavíkur, Kaffileikhúsið í Hlaðvarpanum, Reykjavíkurakademíuna, Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands, Orator félag laganema og Stúdentaráð. Hún var íþróttafréttamaður og síðar fréttamaður hjá RÚV, annaðist vikulega umræðuþætti í Víðsjá á Rás 1 og hefur samið útvarpsþætti. Hún var kunn knattspyrnukona í KR. Kristrún er ráðin stundakennari í lögfræði við Háskólann í Reykjavík og Háskólann á Bifröst og kenndi áður við Háskólann á Akureyri, að því er segir í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert