Stórt bandarískt herskip væntanlegt til landsins

Von er á afar stóru bandarísku herskipi, USS Wasp, í heimsókn til landsins í þessari viku, samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins.

Skipið er svonefnt "amphipious assault"-skip, þ.e. það er sérhannað til innrása af hafi.

USS Wasp er 40.000 tonn og um 250 metrar að lengd. Það er knúið tveimur vélum sem samanlagt skila um 140.000 hestöflum og geta þær komið skipinu á yfir 20 hnúta hraða. Væru vélarnar notaðar til rafmagnsframleiðslu gætu þær lýst upp 160.000 manna borg, að því er segir á vef bandaríska sjóhersins.

Úr fjarlægð minnir skipið nokkuð á flugmóðurskip þar sem á því er lendingarbraut fyrir flugvélar og þyrlur en hægt er að koma allt að 46 þyrlum fyrir um borð. Skipum í sama flokki og USS Wasp er ætlað lykilhlutverk í áætlunum flotans um innrás af hafi. Frá þeim er hægt að senda árásarþyrlur og Harrier-þotur og einnig lendingarpramma sem geta borið skriðdreka, fallbyssur og önnur stríðstól auk hermanna og birgða.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert