VISTA 2007 hleypt af stokkunum

Fjórtán bifvélavirkjar af atvinnutækjasviði Brimborgar undirbúa sig nú undir þátttöku í VISTA 2007, sem er stærsta keppni heims fyrir Volvo-bifvélavirkja. Keppnin hefst nú í október en alls hafa um 12 þúsund þátttakendur verið skráðir til leiks. Þeir koma frá ríflega þúsund verkstæðum í 68 þjóðlöndum. Það er dótturfélag sænska framleiðandans Volvo AB, Volvo Lastvagnar, sem stendur að VISTA en keppnin fer fram í mörgum áföngum og lýkur henni með heimsúrslitum í Gautaborg í júní á næsta ári.

Að þessu sinni taka rúmlega 3 þúsund lið, með 3-4 liðsmönnum hvert, þátt í keppninni en þar af eru fjögur lið frá Brimborg. Þó eru ekki allir þátttakendur bifvélavirkjar því einnig má finna sérfræðinga í varahlutum og stjórnendur í liðunum þótt meirihluti keppenda sé bifvélavirkjar sem sérhæfa sig í viðgerðum á vörubílum og rútum.

En það eru ekki einunigs þátttakendur sem koma að keppninni því til þess að keppni af þessari stærðargráðu geti gengið hnökralaust þarf mikinn fjölda umsjónarmanna.

"Að þessu sinni tekur metfjöldi þátt í keppninni en umfang hennar hefur vaxið um nær 30% síðan VISTA var haldin síðast," segir Åke Hansson, umsjónarmaður VISTA hjá Volvo Lastvagnar.

"Í sumum löndum er nær hver einasti Volvo-bifvélavirki og varahlutamaður skráður til leiks."

En tilgangurinn er þó ekki aðeins að ota saman Volvo-bifvélavirkjum frá öllum heimshornum. "Eitt af markmiðum okkar er að tryggja að getan sé til staðar og sjá til þess að viðskiptavinir okkar hafi aðgang að hæfustu bifvélavirkjunum um ókomna tíð," segir Åke Hansson.

Það er fyrsta umferð keppninnar sem fer fram nú í október en þá þurfa keppendur að svara 30 fræðilegum spurningum auk tveggja útsláttarspurninga. Svæðisundanúrslit verða haldin í upphafi næsta árs á níu stöðum í sex heimsálfum og úrslitin fara síðan fram í Gautaborg í júní 2007 eins og áður segir. Þegar VISTA 2007 lýkur verða liðin 50 ár síðan fyrsta keppnin var haldin og 30 ár síðan byrjað var að nefna hana VISTA.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert