Einar K. Guðfinnsson: „Ísinn brotinn"

Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra gerði hvalveiðar, hugsanlegt bann við botnvörpuveiðum í úthöfunum og ákvörðun um hámarksafla m.a. að umtalsefni í ræðu sinni á aðalfundi L.Í.Ú. sem haldinn var á Hótel Nordica í dag. Sagði hann óumdeilt að stofnar langreyðar og hrefnu hér við land séu í góðu ásigkomulagi og því óhætt að hefja veiðar.

Um hvalveiðar sem leyfðar voru á ný í vikunni sagði Einar að nú væri ísinn brotinn, óvissu eytt og veiðar hafnar í samræmi við stefnu Íslands um sjálfbæra nýtingu auðlinda. Íslendingar hafi litlu fengið áorkað innan Alþjóðahvalveiðiráðsins. Óumdeilt sé að stofnar langreyðar og hrefnu hér við land séu í góðu ásigkomulagi og því óhætt að hefja veiðar.

Hvað mótmæli vegna veiðanna snertir benti ráðherra á að vísindaveiðar á hrefnu hafi verið stundaðar undanfarin fjögur sumur. Mótmæli vegna þeirra hafi ekki verið mikil og einkum komið til við upphaf veiðanna 2003. Smám saman hafi svo dregið úr þeim. „Viðbrögðin sem urðu við upphaf vísindaveiðanna í sumar voru vart mælanleg. Þegar kvótinn var aukinn í sumar glitti hvergi í nokkur mótmæli. Miðað við hrakspárnar hefði þó mátt ætla að veiðar á 60 hrefnum hefðu áhrif og kölluðu á viðbrögð. Svo var þó ekki. Ég geri þó ekki lítið úr áhrifum ákvörðunarinnar um veiði nú. Og við skulum búa okkur undir þau viðbrögð. Við eigum hins vegar einn kost og hann er sá að svara með rökum. Þar er staða okkar sterk. Þetta er réttur okkar – og meira en það – það er skylda okkar sem ábyrgrar þjóðar að nýta þessa auðlind okkar og leggja okkur fram um að það sé gert þannig að hámarksafrakstursgetan aukist.“

Hugsanlegt bann við veiðum með botnvörpu í úthöfunum var fyrir skemmstu til umfjöllunar í fyrri lotu viðræðna um fiskveiðiályktun allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna. Sjávarútvegsráðherra varar við öllum hugmyndum sem geta leitt til yfirþjóðlegrar stjórnar fiskveiða í heiminum. Taka verði þessa umræðu alvarlega og berjast af öllum mætti gegn því að slíku banni verði komið á. Kæmi slíkt til framkvæmda væri viðbúið að þá yrði gengið á lagið og seilst lengra. „Þess krafist að allar veiðar í botnvörpu yrðu bannaðar jafnt innan sem utan lögsögu ríkja.“

Ákvörðun hámarksafla er sá þáttur í starfi sjávarútvegsráðherra sem mest og beinust áhrif hefur á greinina á ári hverju. Einar Kristinn greindi frá því hvað lá til grundvallar ákvörðun hans s.l. sumar þegar aflareglu þorskstofnsins var breytt en veiðihlutfalli haldið óbreyttu. Nú þurfi hins vegar að velja uppbyggingarleið til framtíðar og þar sé engin létt eða ljúf leið til. Til að vísa veginn hafi Hagfræðistofnun H.Í. verið fengin til að gera úttekt á þjóðhagslegum áhrifum af breytttri aflareglu og skoða áhrif af mismunandi veiðihlutfalli á þorski. „Það er von mín að þessi vinna skili okkur fram á veginn til hagsbóta fyrir íslenskan sjávarútveg“.

Þá fjallaði ráðherra einnig um umhverfismerkingar sjávarafurða og sjóræningjaveiðar. Hver staðan væri, hverju hefði verið áorkað og hvert skuli stefna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert