„Verð ekki í fríi um næstu helgi"

Það var vetrarlegt á Akureyri í gær
Það var vetrarlegt á Akureyri í gær mbl.is/Skapti

Líkur eru á því að skíðasvæðið í Hlíðarfjalli á Akureyri verði opnað almenningi um næstu helgi, í fyrsta skipti í vetur. Keppnisfólk hefur æft uppi í Strýtu síðustu vikur, Guðmundur Karl Jónsson, forstöðumaður svæðisins, er bjartsýnn fyrir hönd almennings en þorir þó ekki að slá neinu föstu.

"Ég verð að minnsta kosti ekki í fríi um næstu helgi!" var það næsta sem Guðmundur Karl vildi spá um það að hægt yrði að opna skíðasvæðið þá, þegar Morgunblaðið ræddi við hann í gær. Kveðst þó bjartsýnn.

"Nú er stórhríð á Norðurlandi og kominn töluverður snjór þannig að það styttist í opnun. Við getum samt ekki metið það almennilega fyrr en veðrið gengur niður hver staðan er."

Töluvert snjóaði í Hlíðarfjalli fyrir skömmu og þá munaði mjög litlu að hægt væri að opna skíðasvæðið. "Ástandið þá lofaði mjög góðu en 95% þess sem þá snjóaði hurfu í hlákunni sem fylgdi."

Guðmundur segir að þegar styttir upp og ef frost verður áfram á svæðinu, eins og gert er ráð fyrir, verði hægt að framleiða snjó til þess að nota á þau svæði þar sem hann er ekki alveg nægur. Því er líklegt að fólk geti farið á skíði um næstu helgi. "Það á að snjóa áfram [á morgun] og síðan verður éljagangur og vindurinn á að minnka og þá festist snjórinn frekar í brekkunum."

Fimm stiga frost var í Hlíðarfjalli í gær, snjórinn á svæðinu hefur verið mjög þurr undanfarið og því fokið auðveldlega burt en líklega er því ástandi lokið. "Þetta er besta hríð sem komið hefur í nóvember í mörg ár; mun meiri ofankoma en ég hef séð á þessum árstíma."

Hann segir ástandið eins og gera má ráð fyrir. "Samkvæmt tölfræðinni kemur ekki alvöru frost hér fyrr en um miðjan nóvember, en þegar það gerist þurfum við ekki nema fjóra til fimm slíka daga til þess að búa til nógan snjó til að hægt sé að opna." Guðmundur ráðleggur fólki að fara að búa sig undir veturinn: "Það er allt í lagi að fara að taka fram dótið, máta skíðaskóna, finna gleraugun og vera klár. Það styttist óðfluga í að við opnum."

Í hnotskurn
Forstöðumaður skíðasvæðisins í Hlíðarfjalli telur talsverðar líkur á því að hægt verði að opna svæðið almenningi um næstu helgi. Til að hægt sé að framleiða snjó þarf frostið að vera a.m.k. fjórar gráður.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert