Gosið í Laka 1783 olli hungursneyð í Egyptalandi

eftir Elvu Björk Sverrisdóttur

elva@mbl.is

ELDGOSIÐ sem varð í Laka árið 1783 og olli því að brennisteinsmóðu lagði suður og austur um alla Evrópu og Asíu það sumarið, hafði mun víðtækari áhrif en áður hafði verið talið, samkvæmt nýrri rannsókn sem Þorvaldur Þórðarson, jarðfræðingur við Háskólann í Edinborg, tók þátt í.

Rannsóknin leiðir í ljós að meðal annars má rekja hungursneyð sem varð í Egyptalandi til gossins í Lakagígum en um sjöttungur íbúa Nílardals lést af völdum hennar. Alls tóku fjórir vísindamenn þátt í rannsókninni en auk Þorvalds unnu fræðimenn úr Rutgers og New Jersey-háskóla í Bandaríkjunum að henni. Rannsóknin var m.a. fjármögnuð af Geimrannsóknarstofnun Bandaríkjanna, NASA. Grein þeirra um efnið birtist í lok september í Geophysical Research Letters, en NASA hefur nú birt hana á netinu.

Notuðu tölvulíkan til að rekja breytingar

Vísindamennirnir notuðu tölvulíkan sem NASA hannaði til þess að rekja breytingar á hringrás andrúmsloftsins sem fylgdu gosinu í Laka 1783 aftur til uppruna síns. Þetta er í fyrsta sinn sem tekst með óyggjandi hætti að varpa ljósi á áhrif eldgosa, þar sem askan og ördropar af brennisteinssýru berast hátt upp í loftið, á vatnsforða í Norður-Afríku.

Á vef tímaritsins physorg.com er haft eftir Luke Oman, sem stýrði rannsókninni, að niðurstöðurnar muni hjálpa vísindamönnunum við að spá fyrir um loftslagsáhrif eldgosa sem senda frá sér gosefni upp í heiðhvolfið, einkum hvað varðar breytingar á hitastigi og úrkomu.

Þetta kunni að leiða til þess að samfélög geti gripið til fyrirbyggjandi aðgerða sem yrðu til þess að bjarga mannslífum, brytist slíkt eldgos út.

Þekkt er að eldgos sem verða í hitabeltinu hafa í för með sér hlýrri vetur á norðurhveli jarðar, en rannsókn vísindamannanna fjögurra sýnir að áhrifin geta einnig verið á hinn veginn og ýmist haft í för með sér hlýtt eða kalt veður.

Leiddi til þurrka á stórum svæðum í Afríku

Gosið í Laka hófst í júní árið 1783, en það er talið stærsta gosið sem orðið hefur fjarri miðbaug undanfarin 1.000 ár. Í gosinu kom upp gríðarlegt magn bergkviku og meira en 100 milljón tonn af ýmsum eitruðum lofttegundum bárust út í andrúmsloftið. Gosið leiddi til þurrka á stórum svæðum í Afríku sem höfðu í för með sér að vatnsmagn í Nílarfljóti snarminnkaði.

Vegna þessa reyndist ekki unnt að rækta stóra hluta lands. Árið eftir var vatnsmagn í Níl heldur ekki fullnægjandi og skömmu síðar, eða í nóvember 1784, hófst hungursneyð í Egyptalandi, að því er fram kemur í rannsókninni. Á norðurhveli var sumarið 1783 kalt og á sumum stöðum hið kaldasta í 500 ár.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert