Einn maður lést í hörðum árekstri á Vesturlandsvegi

Frá slysstað á Vesturlandsvegi í kvöld. Vegurinn var lokaður í …
Frá slysstað á Vesturlandsvegi í kvöld. Vegurinn var lokaður í um 2 klukkutíma eftir að slysið varð. mbl.is/Júlíus

Einn maður lést í hörðum árekstri tvegga bíla, sem varð á Vesturlandsvegi rétt norðan við gatnamót Þingvallavegar um klukkan 17:30 í dag. Annar maður slasaðist í árekstrinum. Að sögn lögreglu er óljóst með meiðsli hans en maðurinn er ekki talinn í lífshættu. Vesturlandsvegi var lokað í báðar áttir á meðan rannsókn slyssins stóð yfir en lokunum var aflétt kl. 19:37.

Bílarnir tveir, sem ekið var í gagnstæðar áttir, skullu saman með þeim afleiðingum að ökumenn beggja bifreiða festust í bílunum. Sjúkrabílar, tækjabíll Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins og lögregla fóru tafarlaust á vettvang. Báðir ökumenn voru fluttir með sjúkrabílum á Slysadeild Landspítala-háskólasjúkrahúss. Ökumaður annars bílsins var úrskurðaður látinn er komið var á slysadeild en hinn er ekki talinn í lífshættu, að sögn lögreglunnar í Reykjavík.

Austan rok og mikil slydda var á þessu svæði í kvöld og skyggni slæmt. Vesturlandsvegi var lokað í báðar áttir á meðan rannsókn slyssins stóð yfir. Lögreglan segir, að vegna aðstæðna á vettvanginum hafi ekki verið hægt að liðka til með umferð fyrr en að frumrannsókn lokinni.

Að sögn lögreglu var töluvert um að fólk hringdi til þess að mótmæla lokuninni á veginum. Segir lögreglan að margir þeirra sem hringdu hafi sýnt aðstæðum litla virðingu og skilning. Lögreglan tekur fram, að klukkan 17:44 hafi upplýsingum verið komið til Ríkisútvarpsins og Bylgjunnar um umferðarslysið og lokunina á Vesturlandsveginum og jafnframt óskað eftir því að ökumenn sýndu þolinmæði vegna biðarinnar.

Lögreglan í Reykjavík lýsir eftir vitnum að slysinu. Tæknideild lögreglu Reykjavíkur rannsakaði slysið og rannsóknarnefnd umferðarslysa sendi einnig mann á vettvang til rannsóknar.

Nú hafa 29 manns látið lífið í 26 banaslysum í umferðinni á þessu ári. Á síðasta ári létust nítján í umferðarslysum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert