Bæjarráð Bolungarvíkur fagnar skýrslu Vegagerðar um jarðgöng

Bæjarráð Bolungarvíkur samþykkti ályktun í dag þar sem fagnað er útgáfu skýrslu Vegagerðarinnar, Jarðgöng á leiðinni Bolungarvík – Ísafjörður, helstu möguleikar og lýst nægju með samráðsfund, sem haldinn var í dag þar sem samgönguráðherra, vegamálastjóri og umdæmisstjóri vegargerðarinnar á Vestfjörðum fóru yfir skýrsluna með bæjarstjórnum Bolungarvíkur og Ísafjarðarbæjar.

Segir í ályktuninni, að frá því að ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í september 2005, að gerð yrðu göng á milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur, hafi verið haft samráð við heimamenn og það sé til fyrirmyndar.

Samkvæmt skýrslunni uppfylla þrjár leiðir þær öryggiskröfur sem lagt var upp með. Þetta eru Hnífsdalsleið, Skarfaskersleið og Tungudalsleið. „Að teknu tilliti til fjarlægðar, samfélagsþátta og umhverfissjónarmiða telur bæjarráð Bolungarvíkur að Skarfaskersleið og Tungudalsleið séu álitlegustu kostirnir. Fram kom hjá ráðherra að á næstu vikum fái Skipulagsstofnun kynningarskýrslu vegagerðarinnar í hendur og ákveði hvort framkvæmdin þurfi að fara í umhverfismat. Gert er ráð fyrir að endanleg tillaga samgönguráðherra verði lögð fyrir alþingi fyrir þinglok í mars 2007. Bæjarráð ítrekar mikilvægi þess að sú tímasetning standist," segir í ályktuninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert