Hvalir efst í huga útlendinga

Hvalaskoðun er erlendum ferðamönnum efst í huga.
Hvalaskoðun er erlendum ferðamönnum efst í huga. mbl.is/Árni Torfason

Hvalaskoðun er erlendum ferðamönnum efst í huga og Mývatn eftirminnilegast, skv. könnun sem gerð var á meðal útlendinga sem ferðuðust um Norðurland sl. sumar.

Þegar spurt var hvað erlendum ferðamönnum sem höfðu heimsótt Norðurland væri efst í huga varðandi landshlutann nefndu flestir hvali (26%) en síðan Mývatn (21%). Náttúruna nefndu 17%, Akureyri nefndu 10%, jafnmargir firði og flóa, 9% eldfjöll og hraun og 8% nefndu fjöll.

"Það er mjög athyglisverð niðurstaða að hvalir séu nú ofar í hugum erlendra sumargesta en Mývatn þegar þeir hugsa til Norðurlands og ótvírætt saga til næsta bæjar, eins og segir í greinargerð með könnuninni," segir á vef Ferðamálastofu.

Könnunin var unnin af Rannsóknum og ráðgjöf ferðaþjónustunnar fyrir Vaxtarsamning Eyjafjarðar, matvæla- og ferðaþjónustuklasa meðal erlendra brottfararfarþega í Leifsstöð og á Seyðisfirði.

Af þeim gestum á Norðurlandi sem afstöðu tóku töldu 86% að Norðurland væri frábrugðið öðrum landshlutum. Nær helmingur þeirra nefndu að náttúran þar væri öðruvísi, 16% töldu gott veður einkenna landshlutann umfram önnur svæði og 11% nefndu að þar væru ferðamenn víða færri en annars staðar. Rúmlega helmingur þeirra sem höfðu komið á Norðurland höfðu séð auglýsinga- eða kynningarefni um landshlutann. Þeir sem höfðu séð slíkt kynningarefni áður en þeir fóru að heiman sáu það helst á netinu (33%) en því næst í ferðabæklingum (22%). Eftir að fólk var komið til Íslands fékk það helst upplýsingar um Norðurland í ferðabæklingum (30%) og á upplýsingamiðstöðvum (23%).

Af einstökum stöðum á Norðurlandi þótti flestum erlendum gestum þar Mývatn vera á "topp þremur" sem eftirminnilegasti staðurinn (69%), síðan Akureyri (43%), Húsavík (41%) og Dettifoss (30%) en síðan komu Krafla (9%) og Ásbyrgi (7%).

Áberandi flestir af gestum Norðurlands nefndu að náttúran/landslagið hefði verið það besta við landshlutann (43%) en síðan kom hvalaskoðun (15%), Mývatn (11%).

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert