"Ekkert keypt nema það mætti nota"

Guðfinna Hannesdóttir.
Guðfinna Hannesdóttir. mbl.is/Sig. Jóns.
Eftir Sigurð Jónsson
„Mamma hafði þann sið að hún hóaði okkur krökkunum saman og lét okkur syngja jólasöngvana með sér á aðfangadagskvöldið. Við sungum Heims um ból, Í Betlehem er barn oss fætt og fleiri jólalög. Jólin voru alltaf ánægjuleg og mikið tilhlökkunarefni hjá okkur börnunum. Það fengu allir nýja skó á jólunum og það var gerð tilbreyting í mat, svo var farið í kirkju á jóladag að Gaulverjabæ," sagði Guðfinna Hannesdóttir sem fæddist á Hólum í Stokkseyrarhreppi 28. desember 1906 og verður því 100 ára næstkomandi fimmtudag.

"Við vorum sjö systkinin sem náðum fullorðinsaldri," sagði Guðfinna sem segist vera af Bergsætt en foreldrar hennar voru Hannes Magnússon, bóndi á Hólum og Þórdís Gísladóttir, bæði Árnesingar. Hún fór í húsmæðraskóla á Staðarfelli í Dalasýslu og vann ýmis störf, m.a. í gróðurhúsum í Hveragerði og síðan á elliheimilinu í Hveragerði þegar það var stofnað 1952. Einnig starfaði hún á Heilsuhælinu og endaði starfið þar með því að vaka yfir Jónasi lækni í 15 nætur. Í Hveragerði bjó hún í litlu húsi í Bláskógum 4 og fékk þrisvar sinnum verðlaun fyrir skrúðgarð sinn við húsið. "Ég var alltaf að vinna í garðinum, það voru mínar sælustu stundir," sagði Guðfinna.

Jólakindinni var slátrað

„Það var alltaf hangikjöt á jóladag," sagði Guðfinna þegar hún rifjar upp sín bernskujól í vistlegu herbergi sínu á Ási í Hveragerði þar sem hún er með muni sína í kringum sig, myndir og fleira. Þar má sjá mynd af henni ungri konu með sítt hár alveg niður á hæla sem hún sagðist reyndar hafa þurft að klippa því það hefði verið óhöndugt að vera með svo sítt hár við vinnu.

„Á aðfangadag var jólagrautur og svo var líka kjötsúpa með nýju kjöti. Það var alltaf slátrað einni kind fyrir jólin til að fá nýtt kjöt. Fyrir jólin voru bændur gjarnan spurðir hvort þeir væru búnir að velja jólakindina. Það var á þessum tíma oft fátækt á heimilum en hjá okkur var allt gert sem hægt var til að láta barnaskaranum líða vel. Allur fatnaður var heimaunninn, ofinn og prjónaður og ég man að það hjálpaði mikið til þegar það kom prjónavél á heimilið. Mamma lagði sig mikið fram við prjónaskapinn og ég man að ég vaknaði eitt sinn um nótt og heyrði að hún var að prjóna, ég heyrði glamrið í prjónunum. Ég hef oft leitt hugann að því hvað þetta var mikill dugnaður hjá konum í þá daga að prjóna peysur á krakkahópinn sinn," sagði Guðfinna og kvaðst enn sjá fyrir sér konurnar koma til kirkju með barnahópana í nýjum peysum sem þær höfðu prjónað.

„Það var ekki fyrr en á seinni árunum heima á Hólum að bræður mínir smíðuðu jólatré og við skreyttum það með pokum og svo með kertum en þá vorum við minnt á að fara varlega með eldinn og því var að sjálfsögðu hlýtt. Svo spiluðum við mikið á jólunum og það kom fyrir þegar gestir komu að við spiluðum til morguns. Fullorðna fólkið spilaði vist en við krakkarnir spiluðum púkk. Það var mikið fjör í kringum þetta og við skemmtum okkur vel.

Það var nú ekki mikið um gjafir á þessum tíma. Það þótti gott að fá nýja skó og sokka og þetta var að sjálfsögðu allt handunnið heima. Það þekktist ekki að gefa sérstakar gjafir á jólunum en allt miðaðist við nytsama hluti. Það var ekkert keypt nema það mætti nota," sagði Guðfinna þegar minnst var á jólagjafir.

Þegar talinu er vikið að nútímanum finnst henni annar bragur á hlutunum: „Mér leiðast svolítið lætin og gauragangurinn í kringum jólin. Ég vil hafa jólin friðsæl og kyrrlát. Kapphlaupið um gjafirnar og gauragangurinn sem því fylgir er kominn út í öfgar. Ég á mjög góðar minningar um jólin heima. Það var svo gott að vera heima hjá pabba og mömmu um jólin. Ég er alltaf þakklát fyrir að hafa átt gott heimili og góð systkini. Það er eins og gull að hugsa til þess tíma. Jólin snúast mikið um matargerð og gjafir og sérstaklega það að vera saman, það er mikils virði. Maður finnur það þegar allir eru fallnir frá," sagði Guðfinna Hannesdóttir sem unir hag sínum vel á Ási.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert