Dælingu olíu úr Wilson Muuga haldið áfram í alla nótt

Wilson Muuga á strandstað í dag. Á myndinni má sjá …
Wilson Muuga á strandstað í dag. Á myndinni má sjá slönguna, sem liggur úr skipinu upp á land. mbl.is/ Ómar

Vel gengur að dæla olíu úr Wilson Muuga á strandstað við Sandgerði. Á sjötta tímanum í dag hafði um 50.000 lítrum af olíu verið dælt úr skipinu eða um 45 tonnum, samkvæmt upplýsingum Gottskálks Friðgeirssonar, fulltrúa Umhverfisstofnunar á strandstað. Gert er ráð fyrir að dælingu verði haldið áfram í allan nótt og gangi allt að óskum ætti verkinu að ljúka eftir u.þ.b. sólarhring.

Hafist var handa við að dæla olíu úr skipinu um klukkan fjögur síðastliðna nótt en þykk olía er í skipinu og er henni dælt hægt til að draga úr hættu á að eitthvað fari úrskeiðis.

Samkvæmt upplýsingum Gottskálks eru átta menn um boð í skipinu og hafa þeir verið þar frá því um hádegi í gær. Ekki stendur til að þeir fari í land fyrir nóttina heldur munu þeir halda starfi sínu áfram þar í nótt. Verið er að færa þeim matarbirgðir og hlaða fyrir þá farsíma samkvæmt upplýsingum Gottskálks. Þá segir hann mennina vera starfsmenn Olíudreifingar og undirverktaka Framtaks sem kunni á allar dælur og tengingar. Einnig eru um tíu olíuflutningamenn auk björgunarsveitarmanna að störfum í landi.

Spáð er vaxandi vindi á strandstaðnum í kvöld en Gottskálk segir það lán í óláni að hann verði líklega að austan. Gangi það eftir eigi það ekki að tefja vinnu á strandstaðnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert