Vistmenn yfirgefa Byrgið

Tuttugu vistmenn hafa yfirgefið meðferðarheimilið Byrgið síðustu vikur í kjölfar umfjöllunar í fjölmiðlum um málefni heimilisins og forstöðumanns þess, Guðmundar Jónssonar.

Jón Arnarr Einarsson, settur forstöðumaður Byrgisins, staðfesti þetta í samtalið við Morgunblaðið og sagði að ástandið hefði farið afar illa með vistmenn og valdið þeim áhyggjum. Margir hefðu farið og flestir þeirra væru nú á götunni, komnir í neyslu á ný. Þó fóru tveir þeirra inn á spítala og eru þar enn, að sögn Jóns.

Hann sagði að eftir væru um átta vistmenn á Byrginu núna og alls átta starfsmenn og stefndu þau að því að halda starfseminni ótrauð áfram, þar til ákvörðun kæmi frá félagsmálaráðuneytinu um framhaldið en hennar er að vænta um miðjan mánuðinn.

Eins og Morgunblaðið greindi frá í gær hefur ráðuneytið ákveðið að stöðva tímabundið allar greiðslur til Byrgisins að ósk Ríkisendurskoðunar. Aðspurður hvaða áhrif það hefði á starfsemina sagði Jón Arnarr að þau væru lítil, þótt málið í heild hefði auðvitað haft mikil áhrif á fjölda fólks.

"Það hefur verið mikill órói og eilífur hamagangur í fréttum. Þetta er mjög veikt fólk sem hér um ræðir og þolir illa svona áreiti, tala nú ekki um til lengdar. Það þarf ekki mikið til að fólk springi á limminu í meðferð," sagði Jón Arnarr.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert