Björn segir ekkert safn hafa óskað eftir einkaskjölum frá sér

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, segir á heimasíðu sinni, að hann hafi oft velt því fyrir sér að afhenda safni skjöl í sinni vörslu en jafnoft horfið frá því, þar sem svo virðist sem hann verði að útvega fé til að skrá skjölin eða kosta skráninguna sjálfur. Ekkert safn hafi nokkru sinni að fyrra bragði óskað eftir einkaskjölum frá sér eða boðið sér að láta skrá það safn, sem hann hafi í sinni vörslu.

Nokkur umræða hefur verið um þessi mál undanfarna daga eftir að Björn skrifaði grein í Morgunblaðið sl. laugardag og vitnaði m.a. í skjöl, sem Bjarni Benediktsson, faðir hans, lét eftir sig. Í Staksteinum Morgunblaðsins á mánudag var vakin athygli á þessu og látin í ljós sú skoðun, að fræðimenn nútímans, sem séu að skrifa samtímasögu Íslendinga, þyrftu að átta sig á þessum gagnabanka, sem dómsmálaráðherra byggir augljóslega á. Á bloggvefjum og í greinum í Morgunblaðinu hafa ýmsir hvatt til þess að Björn afhendi safni umrædd skjöl.

Björn segir að á sínum tíma hafi hann ákveðið að láta Ljósmyndasafni Reykjavíkur í té mikið safn ljósmynda í sinni vörslu. „Myndirnar voru óskráðar en á þeim tíma, sem ég afhenti þær, var enn nokkur áhugi á að nota sumar þeirra og taldi ég einfaldast að geta bent á safn sem vörsluaðila. Þegar myndirnar höfðu verið í kössum í mörg ár og ekkert var gert í því skyni að skrá þær eða búa um þær á nokkurn hátt auk þess mér fannst, að stjórnendum safnsins þætti nokkur ami af þeim nema með fráhrindandi skilyrðum, ákvað ég einfaldlega að taka kassana aftur í mína vörslu," segir Björn.

Hann segist hafa leitast við að aðstoða þá sagnfræðinga, sem til hans leita, ef hann viti, að honum sé það fært án of mikils umstangs. Hann segir þó ljós, að á sér hvíli ekki nein skylda til að afhenda skjölin öðrum. Hitt sé umhugsunarefni, hvað skeytingarleysi um skjöl í einkaeign hafi leitt til mikillar eyðu í Íslandssögunni.

„Ég hef sagt frá því hér á síðunni, þegar ég var í Churchill College í Cambridge í Englandi og heimsótti skjalasafn Churchills og Margrétar Thatcher. Umbúnaður þeirra skjala og aðstaða öll fyrir fræðimenn kallar beinlínis á rannsóknir og ritstörf. Þar hafa einkaaðilar tekið höndum saman í því skyni að forða sögulegum verðmætum frá eyðileggingu. Hér á landi þekkist slík alúð fjármálamanna við samtímasöguna ekki," segir Björn.

Heimasíða Björns Bjarnasonar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert