Fangaverðir á Litla-Hrauni óánægðir með laun sín

Litla-Hraun
Litla-Hraun mbl.is/Brynjar Gauti

Fangaverðir á Litla-Hrauni eru afar óánægðir með laun sín og eru að íhuga stöðu sína gagnvart vinnuveitanda sínum, ríkinu. Talsmaður fangavarða segir í samtali við Sunnlenska fréttablaðið á Selfossi að erfitt sé að fá fólk til afleysingastarfa á þeim kjörum sem í boði eru og telur hættu á að fangaverðir hverfi til annarra og betur launaðra starfa.

Sigurjón Birgisson, aðstoðarvarðstjóri á Litla-Hrauni og formaður fangavarðafélags Íslands, segir laun fangavarða og lögreglumanna lengi vel hafa haldist í hendur.

„Á undanförnum áratug höfum við dregist verulega aftur úr lögreglumönnum. Árið 2004 var svo komið að grunnlaun fangavarða voru rúmlega 30 prósentum lægri en laun lögreglumanna og rúmlega 40 prósentum lægri en heildarlaun lögreglumanna. Síðan þá hefur munurinn síst minnkað og líklega aukist,” segir Sigurjón.

Grunnlaun fangavarða fara meðal annars eftir aldri viðkomandi við starfsbyrjun. Sigurjón segir algeng grunnlaun á bilinu 122 þúsund til 130 þúsund krónur en þar við bætist vaktaálag.

Um 45 manns koma að fangavörslu á Litla-Hrauni en þar eru rými fyrir 77 fanga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert