200 þúsund króna sekt fyrir ólöglega vegagerð

Hæstiréttur hefur dæmt mann til að greiða 200 þúsund króna sekt fyrir brot á skipulags- og byggingarlögum með því að hafa ekið jarðýtu og rutt slóða í þeim tilgangi að gera reiðveg í Gufudal ofan Hveragerðis en engin leyfi voru fyrir þessari vegagerð.

Maðurinn, sem var ýtustjóri, viðurkenndi að hafa rutt slóðann og sagði að sér hefði láðst að spyrja verkbeiðandann hvort tilskilin leyfi væru til verksins.

Hæstiréttur taldi að í ljósi aðstæðna allra yrði að virða honum það til gáleysis hversu losaraleg framkvæmd og skipulag verksins var.

Slóðinn var ruddur árið 2004. Fram kemur í dómi Hæstaréttar, að svæðið hafi tveimur árum síðar enn borið veruleg merki eftir verknaðinn. Sé því ljóst að akstur ýtunnar hafui haft í för með sér varanleg spjöll á umhverfinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert