Segir sjúklinga með fíkniheilkenni eiga rétt á bestu meðferð sem völ er á

Frá undirritun samnings um endurgjaldslaus afnot Byrgisins af mannvirkjum varnarliðsins …
Frá undirritun samnings um endurgjaldslaus afnot Byrgisins af mannvirkjum varnarliðsins í Rockville árið 2001. mbl.is/kristinn

Pétur Hauksson geðlæknir segir að þó meðferðarstofnunum fyrir sjúklinga með fíkniheilkenni sem þurfi langtímameðferð hafi verið lokað, sé ábyrgð ríkisins sú sama gagnvart þeim. Þetta kemur fram í bréfi hans til landlæknis vegna málefna Byrgisins. Sjúklingar eigi rétt á bestu meðferð sem völ er á og að komið sé fram við þá af virðingu, en svo virðist sem langur vegur sé frá því að þessum lagaákvæðum hafi verið framfylgt.

Bréf Péturs er svohljóðandi:

Ágæti landlæknir

Bréf þetta er skrifað vegna þess að ég hef áhyggjur af heilsu sjúklinga sem dvalið hafa á meðferðarheimilinu Byrginu. Ég tel að dvöl sumra sjúklinga í Byrginu og áföll sem þeir urðu fyrir þar hafi haft slæm og jafnvel varanleg áhrif á heilsu þeirra og líðan. Það eykur á vanda þeirra og vanlíðan að enginn virðist ábyrgur, og er þá eins og fórnarlambinu sé kennt um ófarirnar. Ég tel að ríkið ætti að axla ábyrgð á því hvernig fór og lýsa yfir bótaskyldu.

Ég mun rökstyðja hér hvers vegna ég tel lög um réttindi sjúklinga og um heilbrigðisþjónustu ná til Byrgisins. Byggi ég þetta erindi mitt um ábyrgð ríkisins á þeim grunni og beini því þess vegna til þín, með afriti til heilbrigðisráðherra. Mikilvægast er þó að þessir sjúklingar fái þá heilbrigðisþjónustu og félagslegan stuðning sem þeir þurfa, en það fá þeir ekki allir í dag. Einnig þurfa þeir öruggt skjól, en margir þeirra eru óttaslegnir og óttast um öryggi sitt vegna stöðu málsins í dag, og hafa ekki burði til að standa í málarekstri sem þessum.

Málavextir eru þeir að árið 2002 frétti ég af því að ýmsir starfsmenn Byrgisins stunduðu kynlíf með sjúklingum þar, m.a. með þeim afleiðingum að þrjár konur sem voru þá sjúklingar í Byrginu voru barnshafandi, en barnsfeðurnir voru starfsmenn. Ég skrifaði landlæknisembættinu um þetta, og taldi eftir það víst að brugðist hefði verið við og þetta ófremdarástand stöðvað, en frétti nú að svo hafi ekki verið, og að málið heyrði ekki undir embættið þar sem Byrgið væri ekki heilbrigðisstofnun.

Þessi kynferðislega misnotkun starfsmanna á sjúklingum mun hafa haldið áfram, með margvíslegum afleiðingum. Fleiri konur sem lágu þar inni eignuðust börn með starfsmönnum. Ég hef ekki öruggar heimildir um allar þessar barnsfæðingar en tel ekki ólíklegt að um 10 börn hafi orðið til með þessum hætti, miðað við þær heimildir sem ég hef. Aðrar afleiðingar en barnsfæðingar eru ekki jafn augljósar en geta verið geigvænlegar og varanlegar, m.a. geðraskanir og versnun fíkniheilkennis. Auk þessarar misbeitingar á trausti og trúnaði sem ríkir milli starfsmanns og sjúklings hafa komið fram frásagnir af kynferðislegu ofbeldi og áreiti, sem hefur auðvitað slæm áhrif á heilsu sjúklings og leiddi einnig til þess að sumar konur útskrifuðu sig í slæmu ásigkomulagi til að flýja þetta og fóru aftur í neyslu, enda engan bata fengið.

Nú er fullyrt að þessir barnsfeður hafi ekki verið starfsmenn, heldur vistmenn, en ljóst er að sumir þeirra voru í ábyrgðarstöðum, sumir titlaðir meðferðaraðilar, aðrir með föst störf á staðnum, en aðrir voru fyrrverandi sjúklingar sem voru „settir á vaktina”.

Einnig er fullyrt að konur þessar hafi ekki verið sjúklingar í skilningi laganna, heldur verið vistmenn á gistiheimili, en ég tel það ekki rétt. Almennt er litið á alkólhólisma og fíkniheilkenni sem sjúkdóma, og eru flestir fagmenn og almenningur væntanlega sammála um það. Í þessu tilviki er um að ræða fárveika einstaklinga, sem eru illa haldnir af sjúkdómseinkennum, bæði andlegum og líkamlegum. Almennt var litið á Byrgið sem meðferðarheimili. Fólk lagðist inn í Byrgið vegna sjúkdóms síns, og fékk þar meðferð. Bæði var um að ræða umdeildar aðferðir til að meðhöndla fíkn, en einnig hefðbundna meðferð, m.a. lyfjameðferð, þótt læknar væru ekki alltaf viðriðnir meðferðina. Komið hefur fram að afeitrun var stunduð með lyfjum, og að illa hafi gengið að fá Byrgismenn til að hætta þessari lyfjameðferð. Auk þess var önnur meðferð veitt við ákveðnum sjúkdómseinkennum.

Áður rak ríkið meðferðarstofnanir fyrir sjúklinga með fíkniheilkenni sem þurftu langtímameðferð, en eftir að þeim stofnunum var lokað hafa þessir sjúklingar ekki í önnur hús að venda en meðferðarstofnanir á vegum félagasamtaka. Það breytir því ekki að áfram er um heilbrigðisþjónustu að ræða, og ábyrgð ríkisins er sú sama.

Sjúklingar eiga rétt á bestu meðferð sem völ er á og eiga einnig rétt á að komið sé fram við þá af virðingu. Svo virðist sem að langur vegur hafi verið frá því að þessum lagaákvæðum væri framfylgt. Ríkið á enn kost á því að sýna þessum sjúklingum þá virðingu að viðurkenna skaðann og ábyrgðina, svo hægt sé að vonast eftir því að þeir fái bót meina sinna.

Ég vil taka það fram að ég ásaka engan með þessu, nema helst sjálfan mig fyrir að hafa ekki fylgt málinu betur eftir á sínum tíma. Tilgangurinn er að koma málinu í réttan farveg, sjúklingunum í hag, en það virðist ekki hafa gerst enn. Ég hef líka viljað komast hjá fjölmiðlaumfjöllun um þennan hluta málsins, af tillitssemi við börnin.

Með von um stuðning þinn við erindinu,

virðingarfyllst,

Pétur Hauksson, geðlæknir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert