Bergþóra Árnadóttir látin

Bergþóra Árnadóttir.
Bergþóra Árnadóttir.

Tónlistarkonan Bergþóra Árnadóttir lést á sjúkrahúsinu í Álaborg í Danmörku 8. mars sl., 59 ára að aldri.

Bergþóra fæddist 15. febrúar 1948. Hún ólst upp í Hveragerði með systkinum sínum Bergi og Grétu en foreldrar hennar eru Árni Jónsson trésmiður, sem er látinn, og Aðalbjörg Margrét Jóhannsdóttir.

Bergþóra byrjaði ung að semja lög við ljóð íslenskra skálda. Fyrstu lögin með henni komu út á safnplötunni Hrif 2 árið 1975. Tveimur árum síðar kom út fyrsta sólóplata hennar, Eintak. Á árunum 1982 til 1987 kom síðan hver platan á fætur annarri: Bergmál (1982), Afturhvarf (1983), Ævintýri úr Nykurtjörn (1984) og Það vorar (1985) og Í seinna lagi (1987). Að auki sendi Bergþóra frá sér kassettuna Skólaljóð (1986). Milli þess sem Bergþóra sendi frá sér plöturnar starfaði hún með ýmsum tónlistarhópum, t.d. Vísnavinum, og einstaklingum, og hélt tónleika þar sem hún kom alla jafna fram ein með gítarinn í hendi.

Árið 1988 fluttist Bergþóra búferlum til Danmerkur og starfaði þar. Eftir alvarlegt umferðarslys varð hún að snúa sér að öðrum viðfangsefnum, en lög og ljóð hélt hún engu að síður áfram að semja.

Hinn 15. febrúar 1989, er Bergþóra varð fimmtug, tóku velunnarar, vinir og fyrrverandi samstarfsmenn sig saman og gáfu út safnplötuna Lífsbókina sem hefur að geyma nokkrar perlur frá ferli hennar.

Bergþóra giftist árið 1971 Jóni Ólafssyni skipstjóra. Þau skildu og hann er nú látinn. Saman áttu þau tvö börn, Jón Tryggva veitingamann og Birgittu skáldkonu.

Sambýlismaður Bergþóru var Hans Peter Sørensen. Útför hennar fer fram frá Hveragerðiskirkju laugardaginn 31. mars og hefst athöfnin klukkan 13.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert