Auglýsingaspjald talið særa blygðunarkennd viðskiptavina

Veggspjaldið sem tekið var niður í gær.
Veggspjaldið sem tekið var niður í gær. mynd/bb.is

Veggspjald með áletruninni „Af hverju ekki kynlíf með Zero forleik“, sem auglýsir nýjan kóladrykk frá Coca Cola, var tekið niður í versluninni Samkaup á Ísafirði í gær, eftir að kvartað hafði verið undan að það særði blygðunarkennd viðskiptavina. Samkvæmt heimildum blaðsins Bæjarins besta sagði einn viðskiptavina meðal annars að slagorðið hvetti mögulega til ofbeldis meðal ungra drengja.

Stefán Torfi Sigurðsson, hjá Vífilfelli á Ísafirði, segir ætlunina ekki hafa verið að særa blygðunarkennd nokkurs manns. „Ætlun okkar var að fá fólk til að brosa út í annað“, segir Stefán. „En við viljum ekki særa blygðunarkennd neins eða móðga, svo veggspjaldið kom strax niður. En við höldum okkar striki með restina.“

Segir Stefán að honum þyki óneitanlega sem þessu fylgi nokkuð púrítanískur þankagangur. „Það er afturhvarf til fortíðar í tíðarandanum þessa stundina. Mér finnst þurfa svolítið góðan vilja til að sjá eitthvað hroðalegt út úr þessu slagorði. Slagorðin í herferðinni eru öll í þessum gír: Af hverju ekki að snúa sér beint að kjarnanum og ekkert vesen.“

Auglýsingaherferðin fyrir Zero mun vera stærsta herferð Coca Cola hér á landi frá upphafi. Byrjaði hún síðastliðin miðvikudag og mun ná hámarki nú á helginni og standa fram yfir páska.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert