Sömu reglur gilda um reykingar um borð í fiskiskipum og á öðrum vinnustöðum

mbl.is/Ásdís

Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, hefur undirritað reglugerð um takmarkanir á tóbaksreykingum þar sem kveðið er nánar á um framkvæmd reykingabannsins sem kemur til framkvæmda þann 1. júní. Reglugerðin gerir m.a. ráð fyrir því, að sömu reglur gildi um reykingar um borð í skipum, sem notuð eru í atvinnurekstri, og á öðrum vinnustöðum en til þessa hafa reglur um reykingar í skipum verið rýmri.

Reglugerðin er sett í samræmi við lög sem Alþingi setti vorið 2006. Í reykingabanninu felst að með öllu verður óheimilt að reykja innanhúss í þjónusturýmum stofnana, fyrirtækja og félagasamtaka, svo sem á veitinga- og skemmtistöðum og þar sem menningar- og félagsstarfsemi fer fram. Í lögunum eru jafnframt settar tilteknar skorður við reykingum á útisvæðum þessara staða.

Í hinni nýju reglugerð er kveðið nánar á um leyfilega tilhögun útisvæða og heimilar hún að reykingar verði leyfðar á útisvæði, til dæmis við veitinga- og skemmtistaði, ef það er undir beru lofti. Sé útisvæðið hins vegar undir þaki, föstu eða hreyfanlegu, má aðeins leyfa reykingar þar ef svæðið er að hámarki lokað að ¾ hlutum og nægjanlegt loftstreymi tryggt upp í gegnum þak eða meðfram þakskeggi.

Reglugerð um smásölu tóbaks
Ráðherra hefur einnig undirritað reglugerð um smásölu á tóbaki. Í henni er meðal annars mælt nánar fyrir um heimildir til reksturs sérverslana með tóbak, umbúnað slíkra verslana og undanþágu þeirra til að hafa tóbak sýnilegt viðskipavinum. Undanþága sérverslana frá sýnileikabanni tóbaksvarnalaga var lögfest á Alþingi vorið 2006.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert