Orri Vigfússon hlýtur helstu verðlaun baráttufólks fyrir verndun umhverfissins

Orri Vigfússon að veiðum í Laxá í Kjós.
Orri Vigfússon að veiðum í Laxá í Kjós. mbl.is

Orra Vigfússyni formanni NASF, Verndarsjóðs villta laxa, verða veitt Goldman umhverfisverðlaunin við hátíðlega athöfn í San Francisco á mánudagskvöld. Hlýtur hann verðlaunin fyrir baráttu sína fyrir verndun laxins í Norður-Atlantshafi.

Í samtali við Morgunblaðið fagnaði Orri verðlaununum og sagði þau vera viðurkenningu á því að hugmyndafræði sín í baráttunni fyrir verndun laxins væri góð. "Ég hef alltaf sagt að það verði að standa þannig að þessu að allir græði - netaveiðimennirnir eiga líka að græða. Ef laxastofnarnir hverfa tapa allir," sagði Orri en frá árinu 1989 hafa samtök Orra safnað yfir tveimur milljörðum króna og notað féð til að kaupa upp net fiskimanna sem veitt hafa laxinn í hafinu. Talið er að á þessum tíma hafi dregið úr netaveiðunum um meira en 75%.

Goldman verðlaunin eru árlega veitt sex einstaklingum fyrir framúrskarandi árangur við að vernda umhverfið og eru talin helsta viðurkenning sem baráttufólk í grasrótarhreyfingum umhverfissinna getur hlotið. Hafa þau verið nefnd "Nóbelsverðlaun fyrir umhverfisvernd." Orri er fyrsti fulltrúi viðskiptalífsins sem hlýtur verðlaunin, en verðlaunaféð er 125.000 dalir, hátt á níundu milljón króna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert