Wolfowitz aflýsti ferð sinni til Íslands að beiðni ráðherra

Paul Wolfowitz, forstjóri Alþjóðabankans
Paul Wolfowitz, forstjóri Alþjóðabankans Reuters

Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra frestaði fyrirhuguðum fundi ráðherra Norðurlanda og Eystrasaltslandanna með Paul Wolfowitz, forstjóra Alþjóðabankans, sem fram átti að fara hér á landi síðastliðinn föstudag, fyrir hönd ráðherranna.

Samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins hafði staðið til að Wolfowitz dveldi hér á landi í einn sólarhring en í bréfi sem sent var skrifstofu hans þann 26. apríl lýsti Valgerður áhyggjum af ástandi mála innan bankans og þeirri niðurstöðu ráðherranna að best væri að fresta fundinum um ótiltekinn tíma. Staða Wolfowitz innan Alþjóðabankans hefur verið óljós en sérstök nefnd sem bankaráð bankans skipaði hefur fjallað um hvort Wolfowitz hafi brotið siðareglur bankans.

Staðfesting barst í kjölfarið þar sem fram kom að Wolfowitz hefði aflýst ferð sinni hingað til lands en engin tjáskipti munu hafa farið fram á milli fulltrúa ráðherranna og Wolfowitz eða starfsmanna hans.

Þorsteinn Ingólfsson sendiherra segist ekki vita hvort mikið hafi verið um að fundum með Wolfowitz hafi verið frestað að undanförnu en að náíð samráð sé á milli ráðherra í kjördæmi Norðurlanda og Eystrasaltslandanna innan bankans og að þetta hafi verið sameiginleg niðurstaða þeirra í málinu.

Þá segir hann ekki ljóst hvort og þá hvenær fyrirhugaður fundur muni fara fram en hefð hefur skapast fyrir því að ráðherrarnir eigi fund með forstjóra bankans einu sinni á ári. Til stendur að bankaráð bankans skili frumskýrslu sinni um það hvort Wolfowitz hefði gerst sekur um óeðlileg afskipti af starfsferli ástkonu sinnar innan bankans á morgun. Þorsteinn segir það þó geta dregist fram eftir vikunni auk þess sem óljóst sé hversu ýtarleg sú niðurstaða verði. Því liggi ekkert fyrir um það hvenær slíkur fundur muni hugsanlega fara fram.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert