„Vildi ekki leika hetju"

Hrafndís Bára Einarsdóttir.
Hrafndís Bára Einarsdóttir.
Eftir Baldur Arnarson baldura@mbl.is
„Þessi stéttaskipting kemur fram alls staðar í þessu litla samfélagi á Kárahnjúkum," segir Hrafndís Bára Einarsdóttir, fyrrverandi starfsmaður öryggisdeildar Impregilo, um ásakanir portúgalsks verkamanns í fjölmiðlum heimalands síns um slæma framkomu við verkafólkið. Hrafndís segir þessa stéttaskiptingu ekki bara koma fram í vinnutímanum, hennar verði einnig vart í búðunum, í mötuneytinu og jafnvel í frítímanum.

„Tökum eitt dæmi. Núna í vetur þegar ég var að vinna þarna kom fyrir að svæðið varð rafmagnslaust. Það gerðist eitthvað og á meðan verið var að vinna að biluninni tók varaaflstöð svæðisins við. Því var lokað fyrir rafmagn inn á búðirnar meðan verið var að vinna á skrifstofum og í mötuneyti og svo öfugt.

Varaaflstöðin hafði ekki nægjanlega mikið rafmagn til að kynda allar vinnubúðaeiningarnar. Þar af leiðandi voru valdar tvær til þrjár einingar sem fengu ekkert rafmagn yfir nóttina í 23 til 28 gráða frosti. Þessi stéttaskipting olli því að hinir verra settu verkamenn fengu ekkert rafmagn í a.m.k. næturbil."

Hún segir kuldann hafa verið mikinn enda slökkt á rafmagnsofnunum í einingunum. Verkamennirnir hafi ekki vitað hvað þeir áttu að gera.

Goggunarröð á vinnusvæðinu

Hrafndís segir portúgalska verkamenn, ásamt kínverskum starfsbræðrum sínum, tilheyra undirstétt. Væru þeir ofar í „goggunarröðinni" kynni málið að horfa öðruvísi við.

„Í þessari goggunarröð sitja þeir efstir Ítalirnir í stöðum yfirmanna Impregilo. Næst koma Íslendingar þar sem þeir vita að það er lítið hægt að stugga við okkur þar sem við vitum að við getum leitað réttar okkar."

Hún tekur undir ásakanir portúgalska starfsmannsins, orð hans um ómanneskjulegan aðbúnað séu rétt.

„Við myndum aldrei sætta okkur við það að vinna við þær aðstæður sem þeir gera, sérstaklega í gangavinnunni. Það eru til myndir af því þar sem menn vaða vatn upp að hnjám í lokuðum göngum með lélegri loftræstingu."

Hrafndís segir erlendum starfsmönnum hótað að verða sendir heim verði þeir með „vesen", sem „flokkist undir kúgun". Þeir megi ekkert gera og með því að senda þá heim sé verið að gera þeim ókleift að leita réttar síns. Hún viti um dæmi þess að flogið hafi verið með þá sama dag og tilkynnt hafi verið um brottrekstur þeirra. Hún segir kynferðislega áreitni einnig hafa komið upp og að kínversk starfskona hafi verið send heim eftir að hafa neitað að þýðast ítalskan yfirmann. Honum hafi verið refsað með því að vera sendur heim í tvær vikur en síðan mætt aftur til starfa. Spurð hvers vegna hún hafi ekki komið með þessar upplýsingar fyrr fram í dagsljósið segir Hrafndís að hún hafi ekki talið það á sínu valdi að hafa áhrif á aðbúnað verkafólksins með lýsingum sínum.

„Ég er bara venjuleg manneskja og vildi ekki leika neina hetju," segir Hrafndís, sem segir yfirlýsingu sem Impregilo sendi frá sér í gær „hlægilega", hún vilji þó ekki tjá sig meira um hana á þessari stundu. Í umræddri yfirlýsingu er fullyrðingum portúgalska starfsmannsins alfarið vísað á bug. | 9

Í hnotskurn
» Hrafndís Bára Einarsdóttir starfaði hjá öryggisdeild Impregilo frá lokum september 2006 þar til í febrúar í ár.
» Hrafndís segir hafa verið reynt að segja sér upp störfum eftir tvo mánuði en fallið hafi verið frá því vegna harðra mótmæla sinna.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert