Umferðarmerki tekin ófrjálsri hendi

Lögreglan á Selfossi hefur haft í ýmsu að snúast undanfarna viku en eins og von er þá eru verkefni lögreglu af ýmsum toga. Aðfararnótt laugardags var t.d. umferðarmerkjum og keilum stolið þar sem þau voru í notkun á Breiðumörk í Hveragerði vegna framkvæmda sem þar eru í gangi. Lögreglan segir að líklegra sé að þetta hafi verið gert af ótuktarskap frekar en af hagnaðarvon.

Skorað er á þá sem varna voru að verki að skila merkjunum jafnframt er þeir sem veitt geta upplýsingar að hringja í síma 480 1010.

Þá barst lögreglu tilkynning um helgina um mann sem hafði komið sér fyrir í bifreið í hlaði sveitabæjar í Flóanum. Í ljós kom að maðurinn var ölvaður auk þess að vera án ökuréttinda. Við leit á manninum fundust fíkniefni. Hann var handtekinn og færður á lögreglustöðina á Selfossi þar sem gerðar voru viðeigandi ráðstafanir.

Aðfaranótt laugardags var brotist inn á veitingastaðinn Menam á Selfossi og þaðan stolið drykkjarvörum. Hluti þýfisins fannst skammt frá. Lögreglan komst fljótlega á sporið sem leiddi til þess að málið upplýstist. Þarna voru að verki nokkrir unglingar segir lögregla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert