„Of mörg mál óútkljáð um ratsjárstöðvar“

Ratsjárstöðvar bandaríska hersins eru fjórar hér á landi á Keflavíkurflugvelli, …
Ratsjárstöðvar bandaríska hersins eru fjórar hér á landi á Keflavíkurflugvelli, Bolafjalli, Gunnólfsvíkurfjalli og Stokksnesi. mbl.is/Eyþór Árnason
Eftir Evu Bjarnadóttur evab@mbl.is
Utanríkismálanefnd Alþingis fundaði í dag og var þar helst fjallað um yfirtöku íslenskra stjórnvalda á ratsjárstöðvum bandaríska hersins á Suðurnesjum þann 15. ágúst og komandi heræfingar bandaríska og norska hersins.

Bjarni Benediksson, alþingismaður og formaður nefndarinnar, sagði í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins að á fundinum hafi verið farið yfir með hvaða hætti rekstur ratsjárstöðvanna ætti vera og á hvaða formi. Þá hafi hlutverk ratsjárstöðvanna í vörnum landsins og lofthelgi verið rætt.

Of mörg álitamál um ratsjárstöðvar óútkljáð

Hingað til hefur verið samstarf við bandaríska herinn um úrvinnslu upplýsinga ratsjárstöðvanna og viðbrögð. En þegar því er ekki lengur til að dreifa vakna spurningar um framhaldið. Með hjálp ratsjárstöðvanna er fylgst með umferð um lofthelgi landsins.

Stærsta hlutverk stöðvanna er að fylgjast með almennu flugi, en einnig flugvélum sem ekki sinna tilkynningarskyldu. Allt þar til herinn fór úr landi sinnti hann viðbrögðum við óleyfilegri inngöngu inn í lofthelgi landsins, en engin úrræði hafa verið til þess að bregðast við óvinveittum loftferðum síðan varnarliðið fór héðan.

„Að mínu mati eru of mörg álitamál enn óútkljáð sem lúta að ratsjárstöðvunum, svona miðað við að íslensk stjórnvöld taka við þeim í næstu viku,“ segir Bjarni. „Ríkið tekur við rekstrinum án gildandi lagasetningar um slíkan rekstur og það er óljóst hvernig fer með þetta til lengri tíma litið. Það standa yfir viðræður við Atlandshafsbandalagið, en það þarf einnig að fara fram umræða á Íslandi um það hversu miklum peningum við erum tilbúin til þess að eyða í varnir og hversu langt á að ganga í þeim efnum.“

Utanríkisráðuneytið skipar þverpólitíska nefnd um málið á haustdögum til að skoða þessi mál. Á meðan verður lofthelgin vöktuð eins og áður en ekki verður hægt að bregðast við óvinveittri loftumferð.

Ekkert samráð við nefndina um heræfingar
Á fundinum voru einnig ræddar heræfingar sem verða við landið á næstunni og verður sú fyrsta í næstu viku. Æfingarnar byggjast á samkomulagi milli Bandaríkjanna og Íslands um framkvæmd heræfinga við landið með reglubundnu millibili. Þáttur stjórnvalda í æfingunum er að taka þátt í upphaldi, húsnæði og fæði fyrir hermennina. Þá munu norski herinn taka þátt í æfingunum í næstu viku.

Steingrímur J. Sigfússon, fulltrúi Vinstri Grænna í utanríkismálanefnd, bókaði harðorða gagnrýni á fundinum. Gagnrýnir Steingrímur hvernig bæði fyrrverandi og núverandi ríkisstjórn heldur á málum hvað varðar breytta stöðu utanríkis- og öryggismála í kjölfar brottfarar Bandaríkjahers af Íslandi.

Segir Steingrímur að án eiginlegs samráðs við utanríkismálanefnd sé „Íslandi nú þvælt inn í heræfingar, samningar gerðir við önnur ríki og bandalög, mál sett í farveg og stofnað til mikils kostnaðar í nútíð og framtíð án nokkurra fyrirliggjandi fjárheimilda í lögum. “

Meðal þeirra útgjalda sem Steingrímur nefnir í ályktun sinni eru árlegar heræfingar Bandaríkjamanna og fleiri á grundvelli samninga Íslands og Bandaríkjanna frá sl. hausti með tilheyrandi gistiríkiskostnaði Íslands og áframhaldandi rekstur ratsjárstöðvakerfis í hernaðarskyni og úrvinnsla á merkjum á kostnað Íslands frá og með 15. ágúst nk.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert