Hernaðarandstæðingar bjóða til viðræðna um friðarstofnun

Samtök hernaðarandstæðinga segjast munu á næstu dögum bjóða fulltrúum borgarstjórnar Reykjavíkur til formlegra viðræðna, með það að markmiði að samtökin taki að sér að sjá um rekstur Friðarstofnunar Reykjavíkur.

Í tilkynningu frá Samtökum hernaðarandstæðinga er vísað til þess, að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri, hafi sagt á samkomu í Höfða í október í fyrra, að borgaryfirvöld hyggðust koma á laggirnar Friðarstofnun Reykjavíkur í samvinnu við innlenda og erlenda aðila. Markmið stofnunarinnar skyldi vera að fjalla um friðarmál á alþjóðlegum vettvangi, halda árlega ráðstefnu og bjóða deiluaðilum viðs vegar að úr heiminum til viðræðna hér á landi.

Samtökin segja að því miður virðist ætla að ganga hægt að þoka þessu þjóðþrifamáli áfram og ekkert hafi heyrst af áformunum um Friðarstofnunina síðustu ellefu mánuðina. Sú spurning vakni hvort stjórnkerfi Reykjavíkurborgar sé of þungt í vöfum til að unnt sé að leiða málið til lykta.

„Samtök hernaðarandstæðinga vilja í ljósi þessa hvetja meirihluta Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks í borgarstjórn Reykjavíkur til að íhuga það alvarlega að leysa úr læðingi krafta einkaframtaksins svo að íslensk sérþekking og hugvit fái notið sín til fulls í útrás friðflytjenda. SHA leggja því til að Friðarstofnunin verði unnin í einkaframkvæmd, en slíkt rekstrarform er mjög í tísku um þessar mundir," segir í tilkynningu SHA.

Samtökin segjast vona, að samningaviðræðurnar við borgina gangi hratt og vel, enda fáar vikur til stefnu áður en fyrsta árlega friðarráðstefnan verði haldin í október.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert