Stefnt að því að selja hlut Orkuveitunnar í REI

Gísli Marteinn Baldursson, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Hanna Birna Kristjánsdóttir …
Gísli Marteinn Baldursson, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Hanna Birna Kristjánsdóttir ræða við blaðamenn eftir fundinn. mbl.is/Kristinn

Fundi borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins er lokið en hann stóð í um þrjár stundir í Ráðhúsinu í dag. Sögðu borgarfulltrúarnir að tekist hefði að leysa ágreining þeirra í millum um samruna Reykjavik Energy Invest og Geysir Green Energy. Varð niðurstaðan sú, að stefna að því að selja hlut Orkuveitu Reykjavíkur í Reykjavik Energy Invest.

Þá var ákveðið að fara yfir það hvernig staðið var að sameiningu orkufyrirtækjanna tveggja af hálfu lykilstjórnenda.

Einnig urðu borgarfulltrúarnir sammála um, að hér eftir verði eingöngu borgarfulltrúar fulltrúar sjálfstæðismanna í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur. Þetta þýðir að Haukur Leósson, núverandi stjórnarformaður OR, víkur sæti. Fram kom í máli borgarfulltrúanna, að þetta þýði ekki að Haukur hafi ekki staðið sig vel. Umrætt mál hafi hins vegar leitt í ljós að betur fari á því að borgarfulltrúar sitji í stjórn fyrirtækisins.

Borgarfulltrúarnir lýstu því einnig yfir á fundinum að þeir vantreystu ekki Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni, borgarstjóra, sem einnig situr í stjórn Orkuveitunnar.

Vilhjálmur sagði á fundinum að ætla mætti að hagnaður af sölu á hlut OR í REI muni nema 10 milljörðum króna og að þeim fjármunum verði varið til að greiða niður skuldir borgarinnar. Þá sagði Vilhjálmur að hann hafi aldrei litið svo á að um langtímafjárfestingu væri að ræða. Einnig sagði hann að hann hefði ekki vitað um annan kauprétt lykilmanna REI en Bjarna Ármannssonar, stjórnarformanns er hann samþykkti samninginn.

Stjórn REI ákvað á laugardag að endurskoða ákvörðun um kauprétt þannig, að öllum starfsmönnum REI og Orkuveitunnar standi til boða að kaupa allt að 300 þúsund krónur að nafnverði á genginu 1,28.

Fram kom, þegar tilkynnt var um samruna REI og Geysis Green Energy fyrir helgi, að Orkuveitan yrði stærsti hluthafinn með 35%. Heildarverðmæti fyrirtækisins eftir samrunann væri áætlað 65 milljarðar króna en heildarhlutafé væri 40 milljarðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert