Samkomulag um nýjan meirihluta handsalað klukkan 14

Margrét Sverrisdóttir, Dagur B. Eggertsson, Svandís Svavarsdóttir og Björn Ingi …
Margrét Sverrisdóttir, Dagur B. Eggertsson, Svandís Svavarsdóttir og Björn Ingi Hrafnsson kynna nýtt meirihlutasamstarf í borgarstjórn. mbl.is/Golli

Dagur B. Eggertsson, væntanlegur borgarstjóri, sagði á blaðamannafundi nú síðdegis að fulltrúar minnihlutaflokkanna í borgarstjórn hefðu eftir aukafund borgarstjórnar í gærkvöldi rætt saman um að reyna að mynda nýjan meirihluta. Þær viðræður hefðu verið teknar upp aftur í morgun og þá með oddvita Framsóknarflokksins og samkomulag um nýjan meirihluta verið handsalað klukkan 14.

Dagur sagði, að reynt hefði verið að hafa samband við Björn Inga Hrafnsson, oddvita Framsóknarflokksins, í gærkvöldi, en hann var þá lagstur í rúmið með flensu. Í morgun var síðan haldinn fundur með Birni Inga klukkan 10:30 og þar kom í ljós að grundvöllur var fyrir meirihlutasamstarfi fjögurra flokka. Um klukkan 14 var síðan handsalað samkomulag um myndun nýs meirihluta.

Björn Ingi sagði, að hann hefði fallist á að koma til fundarins í morgun en það hefði verið sitt mat, m.a. eftir langan meirihlutafund í Ráðhúsinu í gærkvöldi, að mikið bæri orðið á milli Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins varðandi mál Reykjavik Energy Invest. Þá hefði óeiningin í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins verið það mikil að erfitt væri að eiga við hann samstarf.

Björn Ingi sagðist hafa haft samband við Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóra, klukkan 14 í dag og óskað eftir fundi með honum. Þeir hefðu síðan rætt saman í um klukkustund þar sem þeir fóru yfir málið og þar sagði Björn Ingi að hann teldi ekki lengur grundvöll fyrir samstarfi flokkanna.

Dagur verður borgarstjóri í nýjum meirihluta, Margrét Sverrisdóttir, F-lista, verður forseti borgarstjórnar, Björn Ingi verður formaður borgarráðs og Svandís Svavarsdóttir, oddviti VG, verður formaður sameinaðs borgarstjórnarflokks og staðgengill borgarstjóra.

Dagur sagði, að þetta yrði félagshyggjustjórn sem hefði almannahagsmuni að leiðarljósi í orkumálum og öðrum málum og myndi ástunda fumlaus, fagleg og lýðræðisleg vinnubrögð. Frekari málefnaáætlun verður kynnt í næstu viku.

Svandís sagði, að þetta væri stór dagur fyrir félagshyggjuöflin í Reykjavík. Full ástæða hefði verið til að sporna við fótum því menn þyrftu opnari umræðu en verið hefði.

Margrét sagði, að það væri mikið ánægjuefni að taka þátt í því að mynda nýjan meirihluta en glundroðinn í meirihlutasamstarfinu hefði verið orðinn sklíkur, að við það var ekki hægt að una.

Dagur sagði, að Svandísi yrði falið að fara gegnum öll málefni Orkuveitu Reykjavíkur í rólegheitum.

Björn Ingi sagði, að hann tæki þessa niðurstöðu nærri sér vegna þess að hann væri þeirrar gerðar að hann vildi ljúka þeim verkum sem hann hæfi. Hann hefði einnig tekið margt í umræðu undanfarinna daga mjög nærri mér. Sagðist hann telja, að margt sem borgarstjóri hefði fengið á sig sé ekki réttmætt og hann hafi ekki notið réttmæts stuðnings samstarfsmanna sinna.

Björn Ingi sagði m.a. að sjálfstæðismenn hefðu haft forustu í málefnum orkumála. Þegar það hefði síðan gerst að haldnir væru fundir í röðum borgarfulltrúa sjálfstæðismanna þar sem borgarstjóri væri ekki hafður með í ráðum væri komin upp alveg ný staða.

Sagði Björn Ingi, að hann hefði átt gott samstarf við marga í röðum sjálfstæðismanna en eitthvað hefði gerst á síðustu dögum sem olli því að þessi ólga varð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert