Varað við auknu framboði af e-töflum

Fulltrúar lögreglu og landlæknisembættisins á blaðamannafundi í dag þar sem …
Fulltrúar lögreglu og landlæknisembættisins á blaðamannafundi í dag þar sem varað var við auknu framboði af e-töflum. mbl.is/Júlíus

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar við auknu framboði af e-töflum, en þær hafa ekki verið mjög áberandi hér á landi frá árinu 2001. Vísar lögreglan til þess, að töluvert magn af e-töflum og MDMA-dufti hafi verið gert upptækt í svonefndu Pólstjörnumáli í síðasta mánuði og segir það vera vísbendingu um stöðu mála en MDMA-duft er notað í e-töflur.

Á blaðamannafundi, sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu boðaði til í dag, að um sé að ræða hættulegt efni, sem fyllsta ástæða sé að vara við. Karl Steinar Valsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglu höfuðborgarsvæðisins, sagði að einnig hefði verið lagt hald á töluvert magn af e-töflum í götumálum á síðustu vikum.

Karl Steinar sagði, að svo virðist sem aukin neysla á e-töflum væri bundin við umdæmi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Í þeim málum, sem komið hefðu upp að undanförnu, hefði m.a. verið lagt hald á ryðrauðar töflur sem líktust gostöflum. Í töflurnar væru þrykkt merki, svo sem broskall eða 007. Virtist það vera gert í markaðslegum tilgangi til að auðvelda sölu en kaupendur gætu þá beðið sölumenn broskall eða spæjara.

Karl Steinar sagði, að markhópur sölumannanna væri einkum á aldrinum 16-20 ára. Sjálfir væru sölumenn margir í þessum aldurshópi, m.a. nemendur í framhaldsskólum.

Matthías Halldórsson, landlæknir, sem sat fundinn, sagði að e-töflur væru markaðssettar fyrir venjulega krakka. Sagði hann að e-töflur gætu valdið dauðsföllum, þótt slíkt væri ekki algengt. Neysla þeirra gæti einnig haft áhrif á hjarta- og æðakerfið og ylli oft þunglyndi og kvíða.

Eiður Eiðsson, í forvarnadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, varaði sérstaklega við svonefndum salapartíum, en þá tækju nokkur ungmenni samkomusal á leigu, létu boð út ganga um samkvæmi og rukkuðu inn. Sagði Eiður, að þarna væri um að ræða eftirlitslaus samkvæmi þar sem neysla á áfengi og fíkniefnum færi fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert